Undurfagurt eldhús Jennifer Berg

Ljósmynd/Aðsend

Jennifer Berg er lesendum Matarvefjar mbl að góðu kunn enda höfum við deilt uppskriftum frá henni í gegnum tíðina. Þá ekki síst þegar hún bloggar á íslensku en sænska síðan hennar nýtur mikilla vinsælda í heimalandinu en þangað fluttist hún á ný eftir að hafa búið hér á landi.

Jennifer er af sænsku og taílensku bergi brotin og ólst upp í litlum bæ í Svíþjóð. Hún starfar sem fyrirsæta um heim allan en í hjáverkum gerir hún ýmislegt annað eins og að elda. Hún og kærasti hennar, Skúli Jón Firðgeirsson, eignuðust í fyrra sitt fyrsta barn og búa í íbúð í Stokkhólmi sem þau hafa gert upp eftir sínu höfði en gætt þess vel að halda í upprunalega eiginleika íbúðarinnar og er útkoman einstaklega vel heppnuð.

Ljósmynd/Aðsend

Byggði eldhúsið nákvæmlega eftir eigin höfði

„Eldhúsið gerðum við á sama tíma og við fluttum frá Íslandi til Stokkhólms haustið 2019. Við gerðum nokkrar breytingar á íbúðinni og stærsta breytingin var sennilega að flytja eldhúsið í stærra rými og byggja nýtt,“ segir Jennifer í samtali. „Við eyðum miklum tíma í eldhúsinu og þess vegna fannst okkur rosalega mikilvægt að það væri stórt og miðsvæðis í íbúðinni. Það er 3,5 metra lofthæð í íbúðinni þannig að nú höfum við feikinóg skápapláss og svo gerðum við matarbúr úr gömlum „walk in closet“ sem fyrir var í rýminu. Ein af mínum stærstu ástríðum í lífinu er að elda og þess vegna var þetta sérstaklega gaman fyrir mig að geta byggt eldhúsið nákvæmlega eins og ég vildi hafa það,“ segir Jennifer.

Ljósmynd/Aðsend

Liturinn á innréttingunni er einstakur

Hvaðan er innréttingin? „Eldhúsið er sett saman úr hlutum frá nokkrum fyrirtækjum. Allir innviðir, skápar, hillur og þess háttar eru úr IKEA. Svo keyptum við framhliðar og skápahurðir frá fyrirtæki sem heitir Picky Living (pickyliving.se). En það gaf okkur þann möguleika að velja nákvæmlega það útlit og þann lit sem við vildum á eldhúsið. Komum bara með litakóða og þeir framleiddu allt í þeim lit sem við vildum. Háfurinn er frá sænsku fyrirtæki sem heitir Fjäråskupan, og gaseldavélin er frá Bertazzoni. Borðplatan er frá kitchens by paul (kitchens.se),“ segir Jennifer.

Ljósmynd/Aðsend

Eldhúsið er í mjúkum jarðlitum frá gólfi til lofts, þar sem efniviðurinn fær alls staðar að njóta sín. „Ég elska jarðliti, finnst þeir svo róandi og auðvelt að para saman með þeim – þannig að við notuðum mjúkan beige-lit á stóran hluta af íbúðinni sjálfri og liturinn á eldhúsinu er í sama tón. Við völdum síðan borðplötu í aðeins dekkri jarðlit: shittake, og ég er rosalega ánægð með útkomuna. Þar sem það er gas í húsinu kom ekkert annað til greina en að nýta það og kaupa stóra gaseldavél. Við keyptum vél frá ítalska merkinu Bertazzoni og ég elska hana. Gaseldavélin ásamt háfnum frá Fjäråskupan brýtur aðeins upp þetta meira „clean look“ og gefur andstæður, sem heppnaðist nákvæmlega eins og við höfðum hugsað okkur,“ segir Jennifer að lokum og við tökum heilshugar undir – eldhúsið er geggjað.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert