Opna þriðja veitingastaðinn á innan við ári

Veitingastaðurinn Stél hefur opnað sinn þriðja veitingastað á Fitjum í Reykjanesbæ en veitingastaðinn er þegar að finna á Ægissíðu og í Pósthússtræti.

Stél sérhæfir sig í djúpsteiktum kjúklingi í svokölluðum „hot chicken“ stíl sem á rætur sínar að rekja til Nashville í Bandaríkjunum.

Einnig er boðið upp á kjúklingalokur, kjúklingalundir og vængi. Stél deilir veitingarými með hamborgarastaðnum Smass á öllum stöðunum þremur.

„Okkur hefur verið ótrúlega vel tekið á þessu ári frá opnun. Við vissum að við værum með gæðavöru en viðbrögðin hafa farið langt framúr væntingum”, segir Guðmundur Óskar Pálsson framkvæmdastjóri og einn eigenda staðarins. „Hot chicken” er rótgróin tegund af djúpsteiktum kjúklingi frá Nashville í Bandaríkjunum sem hefur náð mikilli útbreiðslu síðastliðin ár og notið gríðarlegra vinsælda. Hann er fyrst marineraður í kryddblöndu, því næst er honum velt upp úr hveitiblöndu og síðan djúpsteiktur. Loks er honum velt upp úr heimagerðri chili-olíu og stráður bragðsterkri kryddblöndu. Viðskiptavinir velja hversu sterkur rétturinn á að vera.

„Opnunarhelgin fór vel af stað og ég vona að fólk kunni að meta kjúklinginn okkar jafn vel og okkar viðskiptavinum virðist líka við hann i Reykjavík. Við erum svo að vinna í því að kynna nokkrar nýjungar svo Stél aðdáendur geta mögulega fengið sér Stél vefjur og salat innan skamms.”

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert