Kúnnarnir drullufúlir – vinsælum veitingastað úthýst

Halldór Þórhallsson matreiðslumaður hefur staðið vaktina í Mjódd frá 1996 …
Halldór Þórhallsson matreiðslumaður hefur staðið vaktina í Mjódd frá 1996 en Hjá Dóra lokar í vor. Eggert Jóhannesson

„Staðan er einfaldlega þannig að leigusamningurinn minn rennur út 30. apríl og einhverra hluta vegna hafa Samkaup þrýst á Reiti að endurnýja hann ekki. Reitir hafa lúffað og ég er því á útleið,“ segir Halldór Þórhallsson matreiðslumaður. Hann hefur um árabil rekið vinsæla matsölu í Mjódd í Breiðholti, Hjá Dóra, en með vorinu er komið að leiðarlokum þar.

Snitselinn vinsælastur

„Hérna hef ég verið síðan 1996. Það er ágætisending enda hefur mér liðið vel og þetta hefur gengið vel,“ segir Dóri en matsalan er í anddyri verslunar Nettó. Dóri selur heimilismat eftir vigt og hefur notið mikilla vinsælda meðal íbúa í Breiðholti, iðnaðarmanna og annarra vinnuhópa sem vilja gera vel við sig í hádeginu. Auk þess grípa margir bakka með mat á heimleið síðdegis þegar sá gállinn er á þeim. „Það er alltaf nóg að gera. Meira að segja miðað við Covid-aðstæður undanfarið. Við höfum haldið okkar og kvörtum ekki yfir því.“

Dóri er með átta heita rétti á boðstólum sem allir eru eldaðir á staðnum, svo sem kjötbollur, svínahrygg með pöru, fiskibollur, lasagna og lambalæri.

„Við fáum alltaf nýja ýsu á hverjum morgni og því er fiskur í raspi alltaf vinsæll. Eins rifjasteikin. En allra vinsælastur er samt snitselinn sem ég er með með á miðvikudögum og föstudögum,“ segir Dóri.

Hann segist ekki vita hvað tekur við hjá sér eftir að matsölunni í Mjódd verður lokað í apríllok. „Nei, ég get ekkert sagt til um það að neinu gagni. Við verðum bara að sjá hvernig landið liggur þegar fram í sækir. Ég held ég byrji bara á að taka mér frí til að ná áttum. Það verður fínt að fá frí. Svo sjáum við hvort eitthvað nýtt verður í kortunum, það er ekkert í sjónmáli nú.“

Eldað fyrir þrjár kynslóðir

Dóri hefur fyrir löngu eignast traustan hóp viðskiptavina sem munu sakna viðurgjörningsins í Mjódd. „Það eru allir drullufúlir, það er stutta svarið,“ segir Dóri þegar hann er spurður um hvernig kúnnarnir hafi tekið tíðindunum.

„Hérna hef ég horft upp á nýjar kynslóðir taka við af þeim eldri. Foreldrar hafa komið hingað með krakkana sína og nú eru þessir krakkar farnir að koma sjálfir með sín börn. Það segir dálítið um hversu langan tíma maður er búinn að vera hérna,“ segir Dóri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert