Kjúklingarétturinn sem þú verður að prófa

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér kemur ofureinföld, holl og góð útfærsla af steiktum grjónum sem eiga vel við, hvort sem það er vetur, sumar, vor eða haust. Steikt hrísgrjón eru í miklu uppáhaldi á mörgum heimilum og þessi útgáfa Berglindar Hreiðars á Gotteri.is slær ekki feilnótu.

Steikt grjón með kjúklingi og grænmeti

Fyrir 4-6 manns

  • 350 g ósoðin grjón (Basmati eða Jasmin)
  • 600 g úrbeinuð kjúklingalæri
  • 160 g gulrætur
  • 160 g grænar frosnar baunir
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 4 egg
  • 4 vorlaukar
  • 3 msk. Kikkoman soyasósa
  • 3 msk. Oyster sósa
  • 2 msk. Sesamolía
  • Salt, pipar, hvítlauksduft
  • Isio4 matarolía til steikingar

Aðferð:

  1. Sjóðið grjónin og leyfið þeim að kólna, best er að nota köld grjón í þennan rétt og um að gera að nota afgangs hrísgrjón eða sjóða grjón með fyrirvara og geyma í kæli. Ég set um 1 tsk. af salti og 2 tsk. af Isio4 matarolíu saman við grjónin þegar þau fara í pottinn.
  2. Byrjið á að undirbúa allt hráefni því þegar að eldamennskunni kemur gengur þetta hratt fyrir sig. Skerið kjúklinginn niður í munnstóra bita, flysjið gulrætur og skerið í þunnar sneiðar, saxið lauk og rífið hvítlauksrif niður. Einnig er gott að píska eggin saman í sérskál og skera vorlaukinn niður.
  3. Steikið fyrst gulrætur upp úr Isio4 matarolíu og kryddið eftir smekk. Setjið um 20 ml af vatni á pönnuna og leyfið því að gufa upp til að mýkja aðeins í gulrótunum.
  4. Þegar vatnið hefur gufað upp má bæta Isio4 á pönnuna ásamt lauk og hvítlauk, steikja áfram á meðalháum hita og krydda eftir smekk.
  5. Bætið grænu baununum saman við grænmetið í lokin og steikið áfram þar til þær eru heitar í gegn, setjið þá allt grænmeti í stóra skál og geymið.
  6. Bætið olíu á pönnuna og steikið nú kjúklinginn, kryddið eftir smekk og setjið hann næst í skálina með grænmetinu.
  7. Skolið pönnuna núna á milli og steikið eggjahræru upp úr vel af Isio4 og saltið eftir smekk, bætið í skálina með grænmetinu og kjúklingnum.
  8. Skolið aftur pönnuna og bætið Isio4 á hana að nýju. Nú mega grjónin fara á pönnuna á háum hita í nokkrar mínútur. Bætið soyasósu, oyster sósu og sesamolíu við hérna og veltið grjónunum upp úr þessu þar til þau verða jöfn á litinn.
  9. Hellið þá grænmeti, kjúklingi og eggjum úr skálinni yfir á pönnuna og blandið saman við grjónin.
  10. Berið strax fram og toppið með söxuðum vorlauk.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert