Síðasta kvöldmáltíðin á Hótel Sögu

Ragnar Wessman og Þórir Erlingsson
Ragnar Wessman og Þórir Erlingsson Eggert Jóhannesson

Söguleg stund, sögðu matreiðslumenn sem í gær komu saman til allra síðasta kvöldverðarins á Grillinu á Hótel Sögu. Sem kunnugt er hafa samtök bænda nú selt hótelbygginguna við Hagatorg í Reykjavík og þangað verður starfsemi menntavísindasviðs Háskóla Íslands flutt á næstu misserum. Áfram lifa þó saga og minningar, til dæmis um Grillið sem var rómaður veitingastaður og frægur fyrir flottheit og frábæran mat. Þarna störfuðu líka margir af bestu kokkum landsins sem margir mættu í gær til söguloka, sem Klúbbur matreiðslumeistara stóð fyrir.

Stefnur og straumar

„Nýjar áherslur, stefnur og straumar í matreiðslumenningu Íslendinga komu gjarnan frá Hótel Sögu. Þar störfuðu frábærir kokkar og mikill fjöldi nema í faginu fór þar í gegn. Ef erlendir þjóðhöfðingjar komu til Íslands voru þeim gjarnan haldnar veislur á Sögu, hótelinu sem var í eigu bænda og því var mikið lagt upp úr því að vera með íslenskt hráefni. Þessu er mikilvægt að halda til haga og að þessu sögulega hóteli verður eftirsjá,“ segir Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara.

Klúbburinn góði er fimmtíu ára um þessar mundir og löng hefð er fyrir því að á samkomur hans mæti fólk jafnan í hvítum kokkajökkum, svörtum buxum og jafnlitum skóm, vel burstuðum. Samkoman í gær var þar engin undantekning.

Fylgir mér alla tíð

„Ég átti góðan tíma á Hótel Sögu og fékk þar góða þekkingu og reynslu í matreiðslustörfum, sem hefur fylgt mér alla tíð,“ segir Ragnar Wessmann. Hann kom fyrst til starfa á hótelinu sem nemi árið 1973 og var þar í nokkur ár. Fór svo til starfa m.a. í útlöndum, en sneri síðan aftur og alls er Sögutími Ragnars nærri tuttugu ár. Hann var yfirkokkur í nærri helming þess tíma.

„Kokkanemar sem komu á Sögu byrjuðu í kjötvinnslu, voru svo settir í að sjá um morgun- og hádegisverð, næsta skref var undirbúningur veislna í Súlnasal. Námsferillinn endaði svo á Grillinu, þar sem við lögðum alltaf mikið upp úr lambakjöti, fiski og öðru góðu. Allt var úthugsað og vandlega útfært, meðal annars eftir frönskum og norrænum hefðum. Matseðlarnir sem mikil vinna var lögð í að útfæra tóku líka mið af hverri árstíð og ég man eftir því að hafa verið sendur af vaktinni út í Öskjuhlíð að tína fíflablöð og blóðberg í skraut á matardiskum,“ segir Ragnar sem að sjálfsögðu mætti til lokahófsins á Grillinu í gær, enda góðs margs að minnast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert