Brugghús um allan heim taka við keflinu

Bruggað fyrir Úkraínu er nýtt góðgerðaverkefni.
Bruggað fyrir Úkraínu er nýtt góðgerðaverkefni. mbl.is/

Nú á dögunum kynnti Pravda Brewery í Lviv í Úkraínu, alþjóðlegt sambruggsverkefni er kallast Bruggað fyrir Úkraínu eða Brew For Ukraine, sem er verðugt verkefni þar sem allir geta tekið þátt á einn eða annan hátt.

Pravda Brewery hóf rekstur sinn árið 2015 og framleiðir um 1 milljón lítra af bjór ár hvert. Brugghúsið hefur frá opnun unnið til fjölda verðlauna og eru vörutegundir þeirra, vel þekktar innan senunnar. Borgin Lviv er staðsett  í vesturhluta Úkraínu, einungis 70 kílómetra frá landamærunum að Póllandi en íbúar borgarinnar Lviv telja um 720 þúsund manns.

Deila öllum uppskriftum brugghússins
Það að brugga bjór er ekki forgangsverkefni á stríðstímum og vegna ástandsins í landinu þá ákváðu aðstandendur brugghúsins, sem áður sinntu einungis störfum við bruggiðnaðinn en hafa nú verið kallaðir í herinn – að opna uppskriftabók brugghússins og deila öllu markaðsefni og öllum uppskriftum Pravda Brewery af þeirra vinsælustu bjórtegundum.

Ágóðinn rennur til góðgerða
Með þessu framtaki þá er það von Pravda Brewery að brugghús víðsvegar um heiminn taki við keflinu þeirra um stundarsakir og sýni þannig stuðning í verki með því að halda upp heiðri og bjórmenningararfleið þeirra víðsvegar um allan heim á meðan Úkraína ver sitt land og þjóð. Allur ágóði af sölu bjóranna mun renna til góðgerðamálefna til stuðnings við úkraínsku þjóðina.

Brothers Brewery taka þátt í verkefninu.
Brothers Brewery taka þátt í verkefninu. mbl.is/Mynd aðsend

Íslensk brugghús leggja sitt af mörkum
Nú þegar hefur fjöldi íslenskra handverksbrugghúsa sýnt áhuga á framtakinu en the Brothers Brewery í Vestmannaeyjum hafa lýst því yfir að þeir muni leggja sitt af mörkum með sambruggun fimmtudaginn 17. mars á Pravda bjór. En um verður að ræða stórt sambrugg sem mun fara fram í Ægis brugghúsi þar sem fjöldi íslenskra brugghúsa og þá m.a. The Brothers Brewery, Og natura, Smiðjan brugghús og Ægir brugghús - brugga saman bjór upp úr uppskriftarbók Pravda Brewery í Úkraínu. Einnig bárust nú í morgun fréttir frá Ölverk brugghúsi í Hveragerði þar sem bruggmeistarinn og einn eiganda Ölverk brugghús, Elvar Þrastarson, var í óðaönn að brugga RED EYES, sem er amerískt rauðöl, eftir uppskrift frá Pravda Brewery í Lviv.  Að sögn Elvars þá þurftu þau hjá Ölverk ekki að hugsa sig lengi um að taka þátt þegar þetta verkefni var kynnt fyrir þeim, enda sé það skylda okkar allra að leggja eitthvað af mörkum á tímum sem þessum og það sé dropinn sem holi steininn.

Laufey og Elvar, eigendur og stofnendur Ölverk brugghúss í Hveragerði.
Laufey og Elvar, eigendur og stofnendur Ölverk brugghúss í Hveragerði. mbl.is/Mynd aðsend

Þess má vænta að þó nokkrir Íslensk-úkraínskir bjórar muni koma á markað á næstu vikum og verður spennandi að smakka á þessum skemmtilegu samstarfsverkefnum og þannig styðja um leið við uppbyggingu og mannúðarstarf í Úkraínu. En HÉR má lesa nánar um verkefnið.

mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert