Hversu oft eigum við að þvo hárið?

Hversu oft eigum við að þvo á okkur hárið? Mögulega ein algengasta spurning sem hárgreiðslufólk fær frá viðskiptavinum sínum. En hvert er svarið?

Það er í raun og veru ekki til neitt eitt gott svar við þessari spurningu, þar sem fólk notar mismunandi hárvörur sem henta mismunandi hártýpum – þá eru líka ákveðnar „reglur“ þegar kemur að hárþvotti fyrir hvern og einn. Hársérfræðingurinn Erinn Courtney segir hárþvott ekki vera „one size fits all“-ferli og best sé að finna þá leið sem hentar hverjum og einum fyrir sig. Hún bætir því jafnframt við að hárþvottur sé mikilvægur fyrir hárvöxt, annars geti hárið þornað, flækjur byrjað að myndast og að lokum hárlos.

Að þvo hárið daglega getur valdið þurrki og brotum en þó ekki miklu hárlosi – og ættu sumar hárgerðir að forðast daglegan þvott vegna þessa. Þeir sem eru með of feitt hár geta þó auðveldlega þvegið hárið daglega vegna þess hversu mikla olíu það framleiðir. Að finna rétta jafnvægið getur verið erfitt. Ef hárið er ekki fitugt eða þurrt ættir þú að þvo það á tveggja til þriggja daga fresti. Og mikilvægt er að nota góðar hárvörur þó að þær kosti örlítið meira en ella – það mun skila sér.

Árstíðirnar breytast og hárið á þér líka. Eftir því sem kólnar í veðri verður hársvörðurinn þurrari og þá framleiðir hann meira af flösu. Það getur reynst gagnlegt að þvo hárið daglega eða annan hvern dag ef maður glímir við meiri þurrk eða flösu á þessum árstíma. En almennt þvær fólk sér sjaldnar um hárið yfir sumartímann. Kjarni málsins er samt alltaf sá, að svo lengi sem hárið og hársvörðurinn eru heilbrigð mun hárið halda áfram að vaxa.

Heimild: Goodhousekeeping.com

mbl.is

Bloggað um fréttina