Nýr veitingastaður opnar í Kópavogi

Ásgeir Þór Jónsson, rekstrarstjóri Mossley
Ásgeir Þór Jónsson, rekstrarstjóri Mossley mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýr staður hefur opnað á Kársnesinu, já eða þannig. Þar var fyrir staðurinn Brauðkaup, sem var bakarí og hamborgarastaður, eins kjánalega og það kannski hljómar. Að staðnum, sem ber nafnið Mossley, standa sömu eigendur og áður, sem sjá nú drauminn sinn uppfylltan með langþráðum veitingastað í hverfinu þeirra, í húsi sem á langa sögu með að sýsla með mat.

Ásgeir Þór Jónsson, rekstrarstjóri Mossley, segir það alltaf hafa verið planið að opna veitingastað á Borgarholtsbraut 19 á móti Kópavogslaug. Þegar þeir keyptu húsið var það alltaf planið.

„Bakaríið var alltaf bara tímabundin pæling, datt svolítið í fangið á okkur og dróst aðeins á langinn og svona. Svo núna um áramótin fannst okkur kominn tími á að fara alla leið með þetta og stofna Mossley. Magnað eiginlega að eiga þetta hús núna sem veitingastað, en hérna allt um kring eru alls konar skemmtilegar æskuminningar,“ segir Ásgeir og brosir. 

Nafnið á sína sögu og tengist Kársnesinu sterkum böndum, þrátt fyrir enskuheitið. Við grúsk hjá einum af eigandanum fann hann forláta kort sem Bandaríkjaher hafði útbúið af höfuðborgarsvæðinu. „Herinn skírði meðal annars Kársnesið Mossley Knoll og það hitti beint mark, okkur fannst þetta góð saga og vinalegt nafn. Svo er bær í Englandi sem ber þetta nafn, nálægt Manchester, sem telur einhverja tæpa ellefu þúsund íbúa. Við stefnum á pílagrímsferð þangað, sækja okkur innblástur, kíkja á pöbbarölt og fara á fótboltaleik – enda allir orðnir harðir aðdáendur Mossley AFC,“ segir Ásgeir og hlær. Kortið sjálft hangir upp á vegg í Mossley, sem er skemmtileg sjón að sjá og mörg skrýtin nöfn bundin við Kópavog.

„Markmið okkar allrar frá upphafi hefur alltaf verið að gera þetta að bar og grilli og að samkomustað Kársnesinga. Að fólkið hér í hverfinu geti átt notalegt kvöld, hitt nágranna sína, kíkt á boltann eða skipulagt vinahittinga - án þess að þurfa fara langt. Það er ekki mikið af svoleiðis stöðum í Kópavogi. Og náttúrulega fengið framúrskarandi veitingar, öl og léttvín í leiðinni,“ segir Ásgeir. „Við strákarnir vorum allir sammála frá upphafi um að það vantaði einhverja stemningu hérna í hverfið og við höfum reynt að skapa hana. Haft hér gott partý á 17. júní og októberfest og vorum síðan með hverfishátíð hér í fyrsta sinn, með öðru góðu fólki, síðastliðið vor. Nú viljum við láta á þetta reyna með þessum nýja stað, að bjóða upp á líf og fjör hér í hverfinu og móttökur hingað til hafa í raun verið framar vonum. Við lofum því að sumarið verður frábært!“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert