Bragðmikil pizza með sterkum ítölskum osti

Ljósmynd/Valla-GRGS

Það er Valla á GRGS sem á heiðurinn að þessari pítsu sem kemur verulega á óvart enda áleggið heldur óvanalegt.

Þessi bragðmikla pizza er algjörlega fullkomin eftir góða vinnuviku. Hún er einföld en samt fáguð og hráefnin fá að njóta sín í botn. Pizzasósan er einungis plómutómatar sem eru bragðbættir eru með sjávarsalti og klassíski Pizzaosturinn frá MS leikur stórt hlutverk ásamt Sterku ítölsku ostablöndunni sem nýlega kom í verslanir. Toppað með snöggsteiktum risarækjum sem kryddaðar eru með hvítlauk og sítrónu. Kalt hvítvínsglas myndi passa fullkomlega með þessari pizzu.

Bragðmikil pizza með hvítlauks risarækjum og sterkum ítölskum osti

  • 2 kúlur pizzadeig, heimagert eða aðkeypt
  • 1 dós plómutómatar
  • 1 poki Pizzaostur frá MS
  • Sterk Ítölsk ostablanda frá MS, magn eftir smekk
  • 24 risarækjur hráar
  • Ólífuolía
  • 2 hvítlauksgeirar, marðir
  • Safi úr ½ sítrónu
  • 1 tsk þurrkuð steinselja
  • Sjávarsalt og svartur pipar
  • Chili duft á hnífsoddi, má sleppa
  • Rifinn parmesan eftir smekk
  • Fersk steinselja ef vill

Aðferð:

  1. Útbúið pizzadeig sem myndi nægja í 2x 12“ pizzur. Einnig er hægt að kaupa afbragðsgott deig í flestum matvöruverslunum.
  2. Opnið dósina með plómutómötunum og látið mesta safann renna af. Setjið tómatana í skál og kreistið með höndunum. Kryddið með sjávarsalti og setjið til hliðar.
  3. Hitið ofninn í 260°C undir og yfirhita eða eins hátt og hann kemst. Hitið 2 ofnplötur með í ofninum eða pizzastein ef þið eigið hann til.
  4. Hitið pönnu með góðri ólífuolíu. Setjið risarækjurnar á pönnuna, setjið hvítlauk, sítrónusafa, steinselju, chili og salt og pipar út á og steikið bara rétt þannig að þær verði bleikar. Setjið pönnuna til hliðar.
  5. Fletjið út deigið með höndunum með því að teygja það til, reynið að forðast að nota kökukefli en með því að nota það lyftir deigið sér síður og kantarnir verða flatir. Stingið göt á botnana með gaffli en skiljið kantana eftir. Setjið 2 arkir bökunarpappír á borðið og færið botnana yfir á pappírinn.
  6. Smyrjið tómötunum á pizzubotnana að köntunum. Stráið pizzaostinum yfir, einn poki er nóg í 2 botna. Setjið því næst sterka ítalska rifna ostinn yfir, magn eftir smekk en mér finnst auðvitað betra að setja meira en minna. Raðið risarækjunum á pizzurnar
  7. Ef þið eigið pizzaspaða setjið þá spaðann undir bökunarpappírinn og rennið pizzunum á plöturnar eða steininn í ofninum. Breytið ofnstillingunni á blástur en það er óþarfi ef þið bakið eina pizzu í einu. Það er einnig hægt að sleppa því að hita plöturnar með ofninum og setja á pizzurnar á plöturnar en að mínu mati verða pizzurnar betri þannig.
  8. Bakið pizzurnar í nokkrar mínútur eða þar til kantarnir og osturinn eru orðnir gylltir. Stráið rifnum parmesan og ferskri steinselju yfir tilbúnar pizzurnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert