Konan á bak við Geysi er með matseðil vikunnar

Elín Svafa Thoroddsen er ein af eigendum ferðaþjónustunnar á Geysi.
Elín Svafa Thoroddsen er ein af eigendum ferðaþjónustunnar á Geysi. mbl.is/Saga Sig

Elín Svafa Thoroddsen er ein af eigendum ferðaþjónustunnar á Geysi og færir okkur matseðil vikunnar að þessu sinni. Hér sjáum við úrvals rétti sem bræða bragðlaukana – en ef það er einhver sem ætti að geta sett saman matseðil, þá er það Elín Svafa sem er sælkeri út í fingurgóma.

Nýr veitingastaður opnar
Framundan á Geysi eru miklar annir og undirbúningur fyrir sumarið. Nýr veitingastaður opnar í maí, Geysir Bistro, sem er þriðji veitingastaðurinn á Geysi en fyrir eru veitingahúsin Geysir Glíma og Geysir veitingahús sem er hótel veitinghúsið. „Einnig erum við að hanna nýjan matseðil fyrir Geysir veitingahús sem og nýjan kokteilseðil. Við erum með vínherbergi í smíðum og erum að auka vínúrvalið til muna hjá okkur“, segir Elín Svafa.

Geysir rooftop og heilsulind á dagskrá
Elín Svafa segir að breytingar séu framundan á Geysir Glímu, þar sem boðið verði upp á ferska kokteila í sumar og úrvalið af heitum drykkjum mun aukast næsta vetur sem og aukinn opnunartími. „Við erum að taka nýjan hluta á Hótel Geysi í notkun, Geysir „rooftop“ sem er þriðja hæðin á hótelinu, en þar er hægt að hafa einkasamkvæmi með aðgang að þaksvölum með dásamlegu útsýni. Þar er lögð mikil áhersla á fallega hönnun og vönduð húsgögn, en einstakt umhverfi er einn af aðalþáttum upplifunar á hótelinu“, segir Elín Svafa og bætir við; „Einnig erum við byrjuð að leggja drög að Geysir heilsulind en fyrsta skrefið mun, í samstarfi við Sóley Organics, vera frumsýnt á Hönnunarmars sem er í þetta skiptið núna í maí. Við hvetjum alla til að leggja leið sína á Grandann þann 6. maí og skoða frábæra nýjung sem er búin að vera í þróun hjá okkur í frábæru samstarfi“, segir Elín Svafa – og við merkjum við sjötta maí í dagatalið.

Allt hráefnið ferskt úr sveitinni
„Við leggjum mikla áherslu á íslenskt eldhús og fersk hráefni beint frá býli enda búum við í ómetanlegri matarkistu þar sem ræktað er ferskt grænmeti til dæmis Gufuhlíðar gúrkur og Friðheima tómatar sem og kjöt beint af býli. Við fáum ferskan fisk á hverjum degi og snæðum yfirleitt góðan fisk í hádegismat á Geysir Glímu hjá matreiðslumeistaranum Heiðari Ragnarssyni. Og það er hvergi betri steik né nauta carpaccio að finna en hjá yfirmatreiðslumeistara hótelsins Bjarka Hilmarssyni – þannig heima fyrir elda ég oft grænmetisrétti og léttari rétti. Um helgar hef ég mjög gaman af því að prófa nýjar uppskriftir og gefa mér góðan tíma í eldhúsinu“, segir Elín Svafa að lokum.

Mánudagur:
Stelpurnar okkar eru svo heppnar að vera í besta skólamötuneyti landsins með frábæran kokk og fá þær alltaf fisk þar á mánudögum. Ég hef því yfirleitt grænmetisrétt á mánudögum í kvöldverð. Við erum öll mjög hrifin af kúrbít og því er þessi kúrbítsréttur tilvalinn á mánudegi.

Þriðjudagur:
Við erum öll mjög hrifin af súpum og mexíkóskri matreiðslu og því er þessi súpa tilvalin á þriðjudegi.

Miðvikudagur:
Á hótelinu bjóðum við upp á bleikju með risotto og það er einn af mínum uppáhaldsréttum - ég myndi reyna að leika það eftir en örugglega ekki með jafn góðum árangri. Það væri bæði hægt að bjóða upp á þetta risotto með lax eins og er í uppskriftinni eða bleikju eins og er í seinni uppskriftinni.

Fimmtudagur:
Við erum mjög hrifin af ítalskri matargerð og ég hef mjög gaman af því að elda pasta. Ég kýs alltaf ferskt pasta og við erum öll sammála að einfaldar uppskriftir og fá hráefni gera bestu pastaréttina.

Föstudagur:
Við erum eins og flestir með föstudagspítsuna og það er gaman að prófa sig áfram þar. Ég er mest hrifin af grænmetispítsum og ég mæli með að prófa kúrbít á pítsu! Ég gaf manninum mínum Ooni pítsaofn í afmælisgjöf og nú getum við prófað okkur áfram í eldbökuðum pizzum.

Laugardagur:
Humarsalat er fullkominn laugardagsmatur sem öll fjölskyldan elskar. Ég myndi laumast út á hótel og fá „middle east“ sósuna frá Bjarka yfirmatreiðslumeistara hótelsins. Hún er fullkomin á humarsalatið en uppskriftin er algjört leyndarmál.

Humarsalat

Sunnudagur:
Góður dagur til að dunda sér í súpugerð og tælensk er í miklu uppáhaldi.

mbl.is