Linda Ben bauð upp á glæsilegar veitingar

„Nú er sá tími árs þar sem mikið er af veislum fram undan og því fannst mér kjörið að koma með nokkrar hugmyndir að smáréttum, sem henta vel á veisluborðinu, og hvernig er gaman að bera matinn fram,“ segir matarbloggarinn og áhrifavaldurinn Linda Ben en hér má finna snjallar hugmyndir að skemmtilegum veisluveitingum sem kitla bragðlaukana.

„Ég gerði tvær mismunandi snittur, aðra með roast beef á sólkjarnabrauði, en ég er viss um að þessi útfærsla á eftir að koma ykkur skemmtilega á óvart. Sólkjarnarúgbrauðið er smurt með rjómaosti og sultu en roast beefið er svo toppað með klettasalati og furuhnetum. Virkilega bragðgóð útfærsla og skemmtileg tilbreyting frá klassíska remúlaðinu og steikta lauknum,“ segir Linda og bætir við: „Hin snittan samanstendur meðal annars af baguette, pestóskinku og döðlum og er alveg svakalega góð þó ég segi sjálf frá.

Góða veislu má aldrei vanta ostabakka að mínu mati og því smellti ég saman einum slíkum. Mér finnst gott að miða við að setja mismunandi osta á bakkann, eins og til dæmis einn harðan, einn klassískan og einn kryddost eins og ég gerði í þessu tilviki. Góðan ostabakka má heldur ekki vanta bragðgóðar kryddpylsur, ég notaði rauðvínssalamí og göngubita á þennan ostabakka og kom það bæði fallega út og pössuðu þær mjög vel með ostunum,“ segir Linda og við tökum heilshugar undir mikilvægi ostabakka.

„Kokteilpulsurnar slá alltaf í gegn á veisluborðum, bæði hjá börnunum og hjá fullorðnum, svo passið að vanmeta ekki hversu mikið fer af þeim. Ég bar þær fram með tómatsósu og dijon-sinnepi í fallegum skálum, það er upplagt að hafa pinna til hliðar svo fólk lendi ekki í vandræðum með að fá sér,“ segir Linda en eins og sjá má á meðfylgjandi myndum skiptir framsetning töluvert miklu máli. Linda parar oft saman ljósan mat í dekkri ílát og öfugt. Það dregur athyglina að matnum. Blóm gera alltaf mikið og svo má ekki gleyma berjum sem koma með litina og gera allt fallegra.

Ljósmynd/Linda Ben

Rjómaosta roast beef-snittur

  • Sólkjarnarúgbrauð
  • rjómaostur
  • mangó- og ástaraldinsulta
  • roast beef frá SS
  • klettasalat
  • ristaðar furuhnetur

Aðferð:

  1. Skerið sólkjarnarúgbrauðið í helminga, smyrjið með góðu lagi af
  2. rjómaostinum og setjið sultu yfir.
  3. Takið eina sneið af roast beef, snúið upp á sneiðina og setjið á brauðið.
  4. Setjið klettasalat og ristaðar furuhnetur yfir.
Ljósmynd/Linda Ben

 

Pestóskinku- og brie-snittur

  • Baguette-brauð
  • hágæðaólífuolía
  • pestóskinka frá SS
  • brie
  • döðlur
  • basil eða mynta
  • sesamfræ (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið baguette í sneiðar og smyrjið með ólífuolíu.
  2. Leggið pestóskinkuna í helminga á hverja brauðsneið.
  3. Skerið brie þvert í sneiðar og leggið ofan á skinkuna.
  4. Skreytið með basil eða myntulaufi og nokkrum sesamfræjum.
Ljósmynd/Linda Ben
Ljósmynd/Linda Ben
Ljósmynd/Linda Ben
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert