Einn vinsælasti veitingastaður Húsavíkur til sölu

Ljósmynd/Facebook

Þau stórtíðindi berast að veitingastaðurinn Naustið á Húsavík sé til sölu.

Naustið hefur notið mikilla vinsælda allt frá því það opnaði fyrst við höfnina. Nú er það til húsa í reisulegu gulu húsi ofar í bænum sem selt er með veitingastaðnum.

Ljóst er að hér er um frábært tækifæri að ræða fyrir aðila sem hefur hug á veitingarekstri enda mikill fjöldi ferðamanna sem heimsækir Húsavík ár hvert.

Í auglýsingunn segir meðal annars:

Veitingastaðurinn Naustið hefur verið rekinn við góðan orðstír um nokkurra ára skeið á Húsavík. Árið 2016 festu eigendur kaup á núverandi húsnæði og fluttu starfsemina í hjarta bæjarins. Samhliða var farið í veigamiklar breytingar á húsnæðinu þar sem það var gert upp að nánast öllu leyti. Naustið sérhæfir sig í sjávarréttum sem unnir eru úr fersku hráefni enda auðvelt að nálgast ferskan fisk, grænmeti og annað sem ræktað er og framleitt í næsta nágrenni.
Staðurinn er búinn öllum nauðsynlegum tækjum og tólum og er hann fallega innréttaður en eigendur hafa haldið í upprunalegan stíl hússins sem er frá árinu 1931.
Staðurinn hefur verið vinsæll frá upphafi og fiskisúpa Naustsins orðin þekkt. Staðsetning er miðsvæðis við aðal hótel- og gistiþjónustusvæði bæjarins. Staðurinn er með rekstrarleyfi fyrir 60 manns. 

mbl.is