Yfir 200 danskar vörur sérfluttar inn

Danskir dagar standa nú sem hæst og það er alltaf gaman að sjá hvað leynist á boðstólnum. Að sögn Sigurðar Reynaldssonar, framkvæmdastjóra Hagkaups, hefur verið mikil aðsókn á danska daga enda margt spennandi að sjá.

„Í tilefni daganna var til að mynda sérframleidd ekta dönsk kæfa sem bragðbætt með síld en sú var hefðin í Danmörku þegar menn vildu gera vel við sig. Þessa kæfu er tilvalið að nota til að gera sitt eigið smurbrauð með því að skera hana niður í fallegar sneiðar og skreyta með beikoni, rauðbeðum og einhverju grænu. Þá er kæfan seld í álbakka sem býður upp á þann möguleika að forsteikja sveppi og beikon, segja ofan á formið og hita í 10-15 mín í ofni og bera svo fram en kæfan kemur í 400 g bakka sem dugar sem frábær forréttur fyrir 6-8 manns,“ segir Sigurður en það kemur vafalaust einhverjum í opna skjöldu að heyra að alvöru dönsk lifrarkæfa sé bragðbætt með síld. Síldin á þó marga aðdáendur og var tekið sérstakt tillit til þeirra.

„Fyrir þá sem elska síld þá fluttum við inn Fiskimandens síld í fimm mismunandi útfæslum, matgæðingar segja okkur að þetta sé alveg geggjuð síld og því hvetjum við alla til að prófa.  Þar bjóðum við upp á þrjár hefbundnar útfærslur og svo erum við með eina laxreykta útfærslu og eina steikta. Síldar aðdáendur fá því eitthvað nýtt að prufa.“

„Vinsælasta varan var samt sem áður heimagerðu smörrebrauðin okkar, við munum bæta í framleiðsluna fyrir næstu helgi og gerum okkar besta til að tryggja nægt framboð. Þessu til viðbótar eru búðirnar fullar að nýjum og spennandi vörum en hátt í 200 nýjar vörur voru fluttar inn í tengslum við dönsku dagana. Eðlilega fer eitthvað að klárast þegar líður á en dönsku dagarnir enda á sunnudag,“ segir Sigurður og ljóst að ást okkar á dönskum vörum er ekki á undanhaldi.

mbl.is