Splunkunýtt íslenskt matarstell frumsýnt

Hönnunarmars er formlega hafinn og af því tilefni hafa veitingastaðurinn Hnoss og Rammagerðin leitt saman hesta sína til að sýna fram á allt það besta í íslenskri hönnun og matargerðarlist.

Kokkarnir á Hnoss með Fanneyju Dóru Sigurjónsdóttur í broddi fylkingar munu bjóða upp á alíslenskt borðhald þar sem öll hráefnin koma beint frá býli. Rammagerðin býr til boðhald þar sem hver hlutur er sérhannaður fyrir þennan tiltekna viðburð. Áhugafólki um íslenska hönnun er boðið að setjast að borðum og upplifa hönnunina og matargerðina á þann sem ekki hefur verið kynntur fyrr hér á landi.

Á matseðlinum kennir ýmissa grasa á borð við saltfisk með tómat og rófum, blálöngu og blóðbergsbúðing svo fátt eitt sé upptalið og hægt er að fá kampavínspörun með.

Borðbúnaðurinn kemur allur fá Aldísi Einarsdóttur en hún hefur þróað þá vöru með Rammagerðinni. Munnblásin glerglös frá Carissa Baktay sem framleidd eru á Kjalarnesi, nánar tiltekið á gamla glerverkstæði Glervíkur. Kerti eftir Þórunni Árnadóttur verða kynnt en Þórunn hóf þróun á kertalínu Rammagerðarinnar í lok síðasta árs. Kertin hafa verið þróuð með Kertasmiðjunni og við sjáum hluta afrakstursins á viðburðinum.
Hnífapörin ættu svo að vekja verðskuldaða athygli því þau eru gerð úr afskornum marmara. Fyrirtækið Arkitypa hefur tekið að sér að hefja þróun á hnífapörum þar sem sköftin eru úr afskornum marmara sem annars hefði farið í landfyllingu. Á viðburðinum verða fyrstu hnífapörin frumsýnd.

Að auki verður Fischer með óvenjulega aðkomu að kvöldverðinum en þau þróuðu sérstaka desert-lykt sem gestum verður boðið að ilma af í byrjun kvölds og má segja að borðhaldið byrji á öfugum enda. Síðast en ekki síst mun keramikerinn Bjarni Viðar skreyta borðið með sínum fallegu munum.

Í boði er að panta borð klukkan 18 og 20 til 8. maí.

mbl.is