Krónan opnar nýja 700 fermetra verslun

Krónan opnar nýja matvöruverslun í Borgartúni 26 á morgun, fimmtudaginn 12. maí og eru verslanir Krónunnar þá orðnar 25 talsins. Verslunarrýmið er rúmgott, um 700 fermetrar að stærð, auk bakrýma, en þar voru áður þrjár verslanir.

Í verslun Krónunnar í Borgartúni verður lögð sérstök áhersla á ferskvöru og gott úrval af tilbúnum réttum með starfsfólk fyrirtækja á svæðinu í huga. Við hönnun verslunar voru umhverfismarkmið Krónunnar höfð að leiðarljósi og verður verslunin m.a. með lokaða kæla sem skilar 25-30% orkusparnaði, auk LED lýsingar sem sparar orkunotkun.

„Það er virkilega ánægjulegt og spennandi að vera mætt aftur í 105 Reykjavík, enda iðar hverfið af mannlífi og hefur verið í mikilli uppbyggingu síðustu ár. Við ætlum að taka dagana snemma í Borgartúninu og opnum klukkan 8 alla daga sem ætti að henta vel fyrir fólk á leið til vinnu. Svo verður að sjálfsögðu boðið upp á sjálfsafgreiðslulausnina Skannað og skundað í hinni nýju verslun sem mun eflaust koma sér vel fyrir fólk á hraðferð sem vill sleppa röðinni við afgreiðslukassana. Við hlökkum til að taka á móti nýjum og eldri viðskiptavinum úr hverfinu,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Starfsfólk Krónunnar mun að vanda taka vel á móti viðskiptavinum og verður aukin aðstoð við uppsetningu á Skannað og skundað í Snjallverslunarappi Krónunnar fyrstu dagana. Opnunartími verslunarinnar er frá klukkan 8 til 20 alla daga vikunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert