Íslenskur matarmarkaður hefst í Hagkaup í dag

Kristinn Magnússon

Það getur verið þrautin þyngri að þróa nýja vöru á örmarkaði eins og Ísland og koma honum í verslanir. Fæstir smáframleiðendur hafa burði til þess að standa í kostnaðarsamri markaðsstarfssemi og barist er um hillupláss í verslunum þar sem smáframleiðendurnir þurfa oft að lúta í lægra haldi. Íslenskar verslanir hafa þó verið nokkuð liðtækar á þessum vettvangi og nú ber svo við að Hagkaup heldur sérlegan matarmarkað íslenskra smáframleiðenda sem hefst í dag, 12. maí og stendur til 22. maí. Um er að ræða mikilvægan vettvang fyrir íslenska nýsköpun og frumkvöðlastarf og er markaður sem þessi mikilvægur stuðningur við smáframleiðendur.

„Við hjá Hagkaup leggjum mikla áherslu á að reyna að virkja og auka innlenda framleiðslu og er matarmarkaðurinn liður í því,“ segir Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups en verslunin hefur verið í fararbroddi íslenskra verslana hvað þetta varðar. „Það er einstaklega ánægjulegt hversu vel framleiðendur hafa tekið í hugmyndina, en þeir verða um 30 talsins á markaðnum. Úrvalið verður ekki bara viðamikið heldur líka fjölbreytt en þar má til dæmis finna íslenskar pylsur, vorrúllur, geitaosta, brjóstsykur, sterkar sósur, te, bakkelsi, vitamín, ís, sinnep, súkkulaði, pestó, marmelaði og svona mætti lengi telja. Það er kraftur í íslenskum matvælafrumkvöðlum og við hvetjum viðskiptavini til að kynnar sér þessar flottu innlendu vörur,” segir Sigurður.

Matarmarkaður íslenskra smáframleiðenda verður haldinn í Hagkaup Skeifunni, Kringlu, Akureyri, Smáralind og Garðabæ frá 12 -22 maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert