10 þúsund króna hádegisverður Önnu Wintour

Anna Wintour
Anna Wintour AFP

Væntanleg er bókin Anna: The Biography eftir Amy Odell sem fjallar um eina áhrifamestu konu heims, Önnu Wintour sem hefur ritstýrt tímaritinu Vogue um áratuga skeið. Í bókinni kemur ýmislegt áhugavert fram enda vart við öðru að búast. Eitt af því sem vakti sérlegan áhuga okkar á matarvefnum eru matarvenjur Önnu en hún er sögð lítið hrifin af grænmeti og ávöxtum.

Ein er sú máltíð sem hún er hvað þekktust fyrir en það er hádegisverður sem samanstendur af steik og caprese salati. Þeir sem til þekkja vita að caprese salat er búið til úr tómötum, mozzarella osti og basillaufum. Frú Wintour sleppir hins vegar tómötunum enda ekki hrifin af þeim og má því segja að hádegisverðurinn hennar sé steik og ostur ásamt nokkrum basillaufum.

Matinn pantar hún alla jafna af veitingastaðnum Palm sem er í Tribeca í New York (höfuðstöðvar Conde Nast eru í One World Trade Center) og greiðir fyrir það 77 dollara eða rúmar tíu þúsund krónur.

mbl.is