Sleppti sykrinum og þetta gerðist

mbl.is/colourbox

Sykur er mögulega eitt það dásamlegasta sem til er – sérstaklega þegar hann er að finna í fallegum kökum eða listilega vel gerðum konfektmola.

En of mikið af sykri er ekki gott og við verðum að vanda okkur því rannsóknir staðfesta að neysla á sykri – þá sérstaklega of mikil neysla – getur haft afar slæmar afleiðingar á heilsu okkar og holdafar.

Einn diggur lesandi Matarvefsins deildi með okkur sögu á dögunum þar sem gerð var tilraun til þess að sleppa sykri.

Ég er algjör nautnaseggur og borða bæði góðan mat auk þess sem mér finnast kökur og sætindi ómissandi. Á dögunum fór ég í fermingarveislu í hádeginu og eftir kjúklingasúpuna var boðið upp á dýrindis hnallþóru og marengsmeistarastykki. Ég bókstaflega titraði af eftirvæntingu og fékk mér tvisvar á diskinn.

Á leiðinni heim var ég orðin veik. Mér leið líkamlega illa, var komin með mígren höfuðverk og þurfti að leggjast fyrir þegar heim var komið.

Þetta fékk mig til að hugsa og ég ákvað að prófa að taka sykurinn út úr mataræðinu og sjá hvaða áhrif það hefði á mig. Ég fæ reglulega höfuðverk og er oft vond í maganum.

Hér var ekki um neinar stórkostlegar breytingar á mataræði að ræða. Bara alls engar. Ég sleppi bara sykri.

Mánuði síðar hef ég lést um tvö kíló (grínlaust!), ekki fengið höfuðverk og mér líður almennt mjög vel. Þetta hefur fengið mig til að endurskoða neysluvenjur mínar og þá þörf að eiga alltaf nammi til að narta í. Ég vil frekar geta gert vel við mig endrum og eins og þá virkilega notið þess ef mig langað til en ég held að það hafi aðallega verið þessi vani; að geta alltaf fengið sér smá nammi þegar líkaminn kallaði á það.

Ég finn að ég er farin að leita að sykurlausum valkostum. Á kaffihúsi um daginn bað ég um sykurlaust sýróp í frappuchinoinn minn og það bragðaðist alveg jafn vel. Ég er sumsé búin að kveikja á perunni hvað þetta varðar og mér líður allt öðruvísi – og miklu betur.

mbl.is