Matseðill vikunnar að hætti Berglindar Guðmunds

Berglind Guðmundsdóttir matarbloggari er jafn litrík og skemmtileg, eins og …
Berglind Guðmundsdóttir matarbloggari er jafn litrík og skemmtileg, eins og matargerðin hennar. mbl.is/Facebook

Það þarf vart að kynna matgæðing vikunnar að þessu sinni, en það er enginn önnur en Berglind Guðmundsdóttir matarbloggari á Gulur, rauður, grænn og salt. Berglind hefur nært matarhjörtu landsmanna til margra ára á miðlum sínum og einnig hér á matarvefnum, með ómótstæðilegum uppskriftum.

„Að velja í vikumatseðilinn var sko ekki auðvelt skal ég ykkur segja. Fyrsta plan var að birta sjö uppskriftir af GRGS því þetta er ókeypis auglýsing og þær ber að mjólka. En svo þegar ég fór að fletta í gegnum uppskriftirnar var svo margt sem heillaði og svo margir hæfileikaríkir einstaklingar sem koma þar að. Listinn er ekki tæmandi enda svo ótrúlega mikið girnilegt í boði. Ég panta því að fá að komast aftur hér að og fá að velja í nýjan vikuseðil, en að því sögðu er ég nokkuð sátt við þennan lista.  Eiginlega bara algjör negla”, segir Berglind og þar tökum við heilshugar undir – vikuseðillinn hefur sjaldan litið jafn girnilega út.

Mánudagur:
Ég elska að fylgja Ásu Regins enda er hún fagurkeri með meiru og er dugleg að deila fallegum myndum frá Ítalíu. Hún hefur verið dugleg að færa okkur Ítalíu heim bæði með hágæða vörum og svo frábærum uppskriftum. Þessi rauðspretta er ein af þessum uppskriftum sem er svo einföld og girnileg. 

Þriðjudagur:
Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að borða rétti sem Matarmenn hafa eldað og get með sanni sagt það að þeir stíga vart feilspor. Svo skemmir ekki að þeir eru bara svo frábærir einstaklingar og hrikalega gaman að fylgja þeim á IG. Mig langar í þetta taco partý!

Miðvikudagur:
Dröfn á Eldhússögum er mikill  ástríðukokkur og fagurkeri. Hér er hún með uppskrift sem öskrar á mig enda er ég algjör "sökker" á uppskriftir sem innihalda döðlur og osta. Nammi namm.

Fimmudagur:
Valla mín (Valgerður Gréta) hefur í mörg ár tekið þátt í að gera GRGS.is enn betri með sínum frábæru, einföldum og bragðgóðu uppskriftum. Það er einhvernveginn allt gott sem hún gerir enda snillingur með meiru. Hversu girnilega hljómar þessi pastaréttur?

Föstudagur:
Hvað er betra eftir vinnuvikuna að opna góða rauðvín og gæða sér á indverskum? Albert hefur verið duglegur að elda fyrir okkur geggjaðan mat en einnig að ferðast um landið til annarra snillinga sem deila með honum sínum bestu uppskriftum. Hér er ein þeirra og hún er vandræðalega girnileg. 

Laugardagur:
Ég vel fólkið sem ég vinn með af kostgæfni og leitast alltaf eftir þessari góðu orku. Þau Ólöf og Omry eigendur Kryddhússins eru einmitt þannig fólk. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vinna með þeim tvær kryddtegundir Ítalann og Mexíkanann sem hafa báðar slegið í gegn og auðvitað nota ég tækifærið og mæli með því að þið prufið bæði þessi frábæru krydd. Það er ekki taco veisla án Mexíkanans og svo er Ítalinn himneskur á pizzuna. En að uppskriftinni þá hljómar ísraelsk grillveisla alveg fáránlega vel!

Sunnudagur:
Elsku María á Paz er fagurkeri fram í fingurgóma. Hún gerir allt svo falleg í kringum sig og hristir fram fallegar og girnilegar uppskriftir. Hvað er þetta með kjúklingalasagna sem fær munnvatnskirtlana til að byrja að seita. Þetta er hreinlega tveir númerum of girnilegt og frábært að enda vikuna á góðum matarboði með fjölskyldu og/eða vinum og bjóða upp á þennan flotta rétt. 

mbl.is