Mun sjá um eldhúsið á Vagninum

Beta Reynis.
Beta Reynis.

Þau stórtíðindi berast að Beta Reynis næringarfræðingur muni taka við eldhúsi Vagnsins í sumar.

Sumarið verður sannarlega sjóðheitt á Flateyri en fram á haustið mun næringarfræðingurinn Beta Reynis ráða ríkjum í eldhúsinu á Vagninum. Vestfirðingum, sem og svöngum ferðalöngum á ferð um Vestfirði, verður boðið upp á dýrindis rétti þar sem hráefni úr nærumhverfi Flateyrar verður í hávegum haft.

Íbúar Flateyrar kannast efalaust flestir við Betu og hina kyngimögnuðu matargerðarlist hennar en Beta sá um matseldina á Vagninum sumarið 2018 og hefur nokkrum sinnum eftir það komið aftur vestur og verið gestakokkur á Vagninum.

Beta hefur í viðtali og ævisögunni Svo týnist hjartaslóð, lýst vertíð sinni á Flateyri sumarið 2018 og því hversu ævintýralega heilandi það reyndist fyrir sálina að dvelja sumarlangt í vestfirska sjávarloftinu, umvafin magnaðri náttúrufegurð og fjölbreyttu mannlífi Önundarfjarðar.

Nú taka Beta, starfsfólk og eigendur Vagnsins enn og aftur höndum saman um að skapa einstakt umhverfi og matarupplifun sem fellur vel að þeirri stemningu sem Vagninn er svo rómaður fyrir.

Eigendur Vagnsins hafa fulla trú á að Beta verði með eitt vinsælasta eldhús sumarsins því það má Beta eiga, hún kann svo sannarlega að töfra fram góðan mat. Þá er nærvera hennar ekki síður seiðandi og lifandi sem gerir heildarupplifunina bara betri. Beta setur mikla ást í eldamennskuna en ástina segir hún mikilvægasta og bragðbesta kryddið.

Matseðilinn ætlar Beta að sníða alveg sérstaklega að sjávarplássinu Flateyri. Sótt verður í ferskan fisk, sjávarfang og annað hráefni úr nærumhverfi en á léttum matseðli sem breytast mun vikulega verður daglega boðið upp á ferskasta fisk dagsins.

Beta er þegar byrjuð að taka niður borðapantanir fyrir sumarið og segja kunnugir að það stefni í fjörugt sumar á Flateyri. Þá er viðburðardagskrá sumarsins á Vagninum óðum að taka á sig mynd og verður hún auglýst nánar næstu daga, en fjölbreyttir tónleikar og aðrar uppákomur verða á Vagninum í viku hverri, líkt og fyrri sumur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert