„Hér höfum við þessa klassísku góðu brownie sem margir ættu að kannast við, en með alveg ótrúlega góðum stökkum snúning þar sem búið er að setja Bíó Kropp bæði í deigið og mylja það ofan á kökuna. Það gerir þessa klassísku blautu og klístruðu köku algjörlega ómótstæðilega!“ segir Linda Ben um þessa geggjuðu uppskrift.
„Kakan er afar einföld og þarf ekki hrærivél í að græja hana. Maður einfaldlega bræðir saman smjör og súkkulaði, blandar því saman við egg, sykur og hveiti. Bætir Bíó kroppinu út í og bakar. Svo toppar maður með meira Bíó kroppi og kakan er tilbúin. Hægt er að gera þessa köku daginn áður ef maður vill, en ég mæli samt alveg með því að borða hana volga nýbakaða með ís, það er bara eitthvað svo ómóstæðilegt við það."