Tvö pör opna ævintýralegan veitingastað saman

Eigendur El Faro taka alltaf á móti viðskiptavinum með bros …
Eigendur El Faro taka alltaf á móti viðskiptavinum með bros á vör. Mbl.is/mynd aðsend

Við fögnum nýjum veitingastöðum, en El Faro opnaði í lok apríl mánaðar við miklar og góðar undirtektir á Suðurnesjunum sem og víðar, því fólk flykkist alls staðar að til að smakka.

El Faro eða „vitinn“ á spænsku, vísar til umhverfis staðarins sem staðsettur er við fallega Garðskaga – þar sem stórkostlegt sólsetur, norðurljós, heimsskautsstormar, himinháar öldur og ríkt dýralíf ræður ríkjum.

Ævintýraþráin leiddi þau saman
Eigendur staðarins eru tvö pör sem hittust síðastliðið sumar á Flateyri er þau unnu saman á spænskum veitingastað, og mynduðust þar sterk vinabönd. Viktor og Jenný frá Íslandi og hjónin Inma og Álvaro frá Spáni. „Eftir ævintýralega gönguferð yfir Hornstrandir komumst við að því að við deildum sömu ástríðu eins og ævintýrum, náttúrunni og auðvitað matarást. Það var í þeirri ferð sem við áttuðum okkur á því að við gætum uppfyllt drauminn okkar saman, opnun okkar eigin veitingastaðar”, segir Jenný María Unnarsdóttir í samtali og bætir við; „Spænsku hjónin Álvaro Andrés Fernandez og Inmaculada Verdú Sánchez eru hinir frábæru yfirkokkar staðarins. Þau lærðu bæði matreiðslu í Baskalandi og deila ástríðu fyrir að gera fólk ánægt með sínum einstaka og bragðgóða mat. Ég og Viktor erum héðan úr Garði, og höfum óskað eftir skemmtilegum veitingastað í heimabænum þar sem fjölskyldan á og rekur hótelið Lighthouse Inn”, segir Jenný – en þau hjónin eru einstaklega gestrisin og taka brosandi á móti viðskiptavinum sínum í borðstofunni eða á barnum.

Mbl.is/mynd aðsend

Spænskur matur sem bragð er af
„Matargerðin okkar er spænsk og miðjarðarhafs matseld - fersk, einföld og heiðarleg þar sem nýtt er hágæða hráefni og er maturinn okkar stútfullur af ríku bragði. Við leggjum mikla áherslu á ferskt íslenskt hráefni í alla okkar rétti svo þú getur alltaf verið viss um gæðin”, segir Jenný og segir þau gera allan mat frá grunni innanhúss, allt frá bragðgóðu sósunum þeirra yfir í heimabakað brauð og eftirrétta. „El Faro er fullkominn staður fyrir nýja matarupplifun. Við bjóðum upp á alls kyns spennandi nýjungar, t.d. spænska tapas smárétti og forrétti sem við mælum með að panta fyrir allt borðið svo þú getir smakkað sem flesta rétti af matseðlinum okkar. Að deila matnum okkar með ástvinum er skemmtileg og afslappandi leið til að njóta máltíðar að okkar mati”, segir Jenný.

Mbl.is/mynd aðsend


Vinsælasti rétturinn er Benejenas
Tapas rétturinn Benejenas hefur slegið hvað mest í gegn á El Faro, en það er djúpsteikt eggaldin í stökku deigi, toppað með sætu sýrópi, sesam fræjum og salti. Verður kremkennt að innan og stökkt að utan sem og að vera bæði sætt og saltað. „Benejenas er ótrúlega skemmtileg blanda og fólk er svakalega hissa á þessum rétti þar sem að við Íslendingar höfum flest öll ekki alist upp við að borða mikið eggaldin. Svo er Patatas Bravas alltaf vinsæll, klassískur spænskur réttur þar sem bornir eru fram gylltir, stökkir kartöfluteningar með alioli og brava sósu. Við erum einmitt með þessa tvo tapas rétti á tilboði með húsvíni eða stórum bjór af dælu fyrir barsvæðið/sófasvæðið okkar. Svo að fólki geti hent sér í tapas og drykk án þess að þurfa að panta borð hjá okkur“, segir Jenný.

„Af forréttunum hafa croquetas verið afar vinsælar enda mjög þekktur spænskur forréttur. Við erum með fjórar tegundir af þessum vinsæla spænska forrétti, kjúklinga, sveppa, nauta og rækju croquetas. Hvítlauksristuðu sveppirnir okkar hafa einnig verið mikið pantaðir og eru persónulega einn af mínum uppáhalds réttum. Fjölbreytt blanda af hvítlauksristuðum sveppum með ólífuolíu kartöflu purée, ristuðum heslihnetum og pikkluðum perlulauk“, segir Jenný.

Mbl.is/mynd aðsend


Þorskurinn sá allra besti og eftirréttirnir á heimsklassa
„Aðalréttirnir hafa allir verið svakalega vinsælir en fólk hefur haft orð á að þorskurinn sé einn sá besti fiskur sem það hefur smakkað á lífsleiðinni sem er ansi gott hrós. Fyrir þá sem þora að prófa eitthvað öðruvísi þá erum við með þekkta réttinn Carrilleras á boðstólnum, silkimjúkar hægeldaðar nautakinnar, brasaðar í rauðvínslegi í nokkrar klukkustundir - bornar fram með kartöflumús, ofnbökuðum og pikkluðum gulrótum ásamt brúnni sósu“, segir Jenný.

Við getum alls ekki neitað því að aðalréttirnir á matseðli eru með þeim girnilegri sem sést hafa, en hvað með eftirréttina? „Inma er eftirrétta sérfræðingur og gerir alla eftirréttina frá grunni. Fólk hefur átt mjög erfitt með að velja um uppáhalds eftirrétt en ég myndi segja að tiramisúið hennar sé á heimsklassa eins og nokkrir kokkar hafa haft orð á og mæli ég sérstaklega með að smakka það. Bakaða spænska ostakakan hennar Inmu sem er borin fram með heimagerðri berjasósu hefur svo vakið mikla kátínu, hún er svo einstaklega bragðgóð og skemmtilega öðruvísi“, segir Jenný.

Mbl.is/mynd aðsend


Spænskur dögurður
El Faro býður einnig upp á spænskan dögurð fyrstu helgi hvers mánaðar með úrval af öðruvísi bröns réttum – spænska eggjaköku fyllta með kartöflum og kryddjurtum, Catalana, eins grillað heimabakað brauð með tómat-hvítlaukssmyrju, serranoskinku, ólífuolíu og rucola. Ekki má gleyma Churros, hið vinsæla djúpsteikta sætabrauð með sykri, borið fram með hefðbundnu spænsku heitu súkkulaði sem er vinsælt hjá ungum sem öldnum og Torrija sem er steikt brioche brauð með vanillu og kanil, brenndum sykurhjúpi að ofan og borið fram með rjóma. Við þurfum ekki að láta selja okkur þetta meira.

Mbl.is/mynd aðsend


Úrval rétta fyrir grænkera
„Við leggjum mikla áherslu á fjölbreytt úrval af grænmetisréttum á matseðli í hverjum flokki fyrir sig. Tapas, forrétti, aðalrétti og eftirrétti og hafa grænkerar sem og aðrir verið alsælir með bragðgóða grænmetisrétti á matseðili. Þess má geta að bæði Berenjenas og hvítlauksristuðu sveppirnir hér að ofan sem hafa verið einir af vinsælustu réttum okkar eru vegan. Við erum svo með Zuccini Raviolis í boði fyrir vegan fólk í aðalrétt og er sá réttur svakalega góður og hefur verið mikið pantaður bæði af vegan fólki og kjötætum. Það er ofnbakað kúrbíts ravioli, fyllt með sveppum, vegan hakki sem við gerum frá grunni, sólþurrkuðu tómata bolognese, gratínerað með vegan bechamel sósu og borið fram með grilluðum sveppum. Svo erum við með vegan súkkulaðimús í eftirrétt, með karamelliseruðum heslihnetumulningi, sykraðri appelsínu, mangó coulis og saltflögum“, segir Jenný að lokum.

 

El Faro hefur hug á að opna fyrr á daginn í sumar með kaffihúsastemningu, og eru að leita af starfsfólki til að geta gert það að veruleika. En þangað til bjóða þau upp á „happy-hour“ alla daga frá kl. 16-18, þar sem einnig má grípa í kjuðana við pool-borðið. Spænska eldhúsið er opið miðvikudaga til sunnudaga frá kl. 18-22 og brönsinn má finna fyrsta laugardag og sunnudag í hverjum mánuði frá kl. 12-15.

Mbl.is/mynd aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert