Rugl einföld regnbogakaka fyrir barnaafmælið

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Ég fékk það skemmtilega verkefni um daginn að vinna með litabombur sem í senn eru ofurfæða eða litarefni fyrir allt sem þér dettur í hug! Það má gleypa hylkin sem fæðubótarefni eða opna þau til að lita ýmiss konar mat, föndur eða annað sniðugt,“ segir Berglind Hreiðars en hér er að sjálfsögðu verið að ræða um Litabomburnar sem Tobba Marínós og Katrín Amni settu á markað á dögunum.

„Hvert glas af Litabombum inniheldur 80 hylki: 20 með rauðrófum, 20 með túrmerki, 20 með blárri spírúlínu, 20 með hveitigrasi!“ segir Berglind og hér að neðan er kökuuppskriftin sem er vel þess virði að skella í.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Regnbogasprengja

Súkkulaðibotnar uppskrift

 • 280 g hveiti
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 2 tsk. matarsódi
 • 430 g sykur
 • 140 g bökunarkakó
 • 1 tsk. salt
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 300 ml AB mjólk/súrmjólk
 • 250 ml ljós matarolía
 • 4 egg
 • 300 ml sjóðandi vatn

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Hrærið saman öllum þurrefnum í eina skál og leggið til hliðar.
 3. Pískið eggin og blandið AB mjólk/súrmjólk, olíu og vanilludropum saman við.
 4. Hellið vökvanum varlega saman við þurrefnin, hrærið og skafið niður á milli.
 5. Hellið að lokum sjóðandi vatninu saman við og skafið áfram niður á milli (deigið er þunnt).
 6. Takið til 4 x 15 cm smelluform, setjið bökunarpappír í botninn og spreyið vel með matarolíuspreyi.
 7. Skiptið deiginu jafnt á milli formanna (um 400 g í hvert) og bakið í 28-30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á en ekki blautu deigi.
 8. Kælið alveg og skerið svo ofan af botnunum svo þeir verði sléttir og kælið þá.

Súkkulaði smjörkrem á milli laga

 • 130 g smjör við stofuhita
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 4 msk. hlynsýróp
 • 50 g bökunarkakó
 • 4 msk. rjómi
 • 500 g flórsykur

Aðferð:

 1. Þeytið saman smjör, vanilludropa og sýróp.
 2. Bætið kakó saman við og síðan flórsykri og rjóma til skiptis og skafið niður á milli.
 3. Hrærið þar til slétt súkkulaðikrem hefur myndast og skiptið á milli botnanna, hafið gott 1 cm lag á milli.
 4. Kælið kökuna á meðan litaða kremið er undirbúið.

Vanillu smjörkrem á milli laga

 • 250 g smjör við stofuhita
 • 4 tsk. vanilludropar
 • 50 ml rjómi (mögulega meira ef ykkur finnst kremið of þykkt)
 • 700 g flórsykur

Aðferð:

 1. Þeytið saman smjör og vanilludropa.
 2. Bætið flórsykri og rjóma til skiptis saman við og skafið niður á milli.
 3. Hrærið nokkrar mínútur þar til loftkennt og ljóst smjörkrem hefur myndast.
 4. Smyrjið þunnu lagi af hvítu kremi á alla kökuna til að binda kökumylsnu, kælið á meðan þið litið restina af kreminu.
 5. Hrærið upp kremið sem eftir stendur og skiptið því niður í skálar eftir því hversu marga liti þið viljið hafa.
 6. Litið með því að opna mismunandi Litabombur, ég notaði 2-3 hylki í hvern lit en þetta er auðvitað smekksatriði svo notið meira eða minna eftir því sem ykkur þykir fallegt.
 7. Smyrjið einum lit í senn yfir alla kökuna með því að setja aftan á lítinn spaða líkt og sést í myndbandinu hér að ofan. Mikilvægt er að skafa alltaf spaðann á milli til að ekkert krem sé á honum þegar þið smyrjið mismunandi litum á.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is