Leyndardómsfyllsti veitingastaður landsins flytur

Þráinn Freyr Vigfússon.
Þráinn Freyr Vigfússon. mbl.is/Hákon

Fyrir rúmlega fjórum árum opnaði Þráinn Freyr Vigfússon matreiðslumeistari „speak easy“ veitingastaðinn ÓX inn af Sumac, sem hann hafði þá átt og rekið í tæplega ár, á Laugavegi 28 í Reykjavík. Báðir staðirnir hafa slegið í gegn.

Til að koma til móts við viðskiptavini ætlar Þráinn að flytja ÓX í stærra húsnæði í kjallara bakhúss á Laugavegi 55 síðsumars og opna þar sérstakan kokteilbar. Enn fremur stendur til að opna annan veitingastað á efri hæðinni síðar, stækka Sumac í framhaldi af flutningunum og bjóða þar upp á aðstöðu í einkaherbergi.

ÓX er lítill og nettur matstaður, þar sem 11 gestir, hópar eða einstaklingar, geta setið við borð í einkaherbergi með sérþjónustu. Setið er í L á háum barstólum við gamla eldhúsinnréttingu sem föðurafi Þráins smíðaði á sínum tíma og stóð uppi í Hlíðarholti í Staðarsveit. Fast verð er fyrir fjölrétta máltíð og drykki og er mikið lagt upp úr upplifuninni. „Ég keypti kjallarann á Laugavegi 55 til þess að bæta og útvíkka starfsemina og geta tekið við fleiri gestum,“ segir Þráinn.

16 gestir geta verið á ÓX á nýja staðnum og verður setið í U í venjulegum, þægilegum stólum. Innréttingin verður flutt þangað og höfð neðar en nú er, svo hæðin passi sem best við stólana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert