Reynsluboltar opna nýjan veitingastað í miðbænum

Þau tíðindi berast úr miðbænum að senn opni nýr veitingastaður í Hafnarstræti.

Það eru engir nýgræðingar sem standa að baki staðnum heldur sömu aðilar og eiga Apótekið, Tapas barinn, Sæta svínið, Fjallkonuna og Sushi social.

Þetta þýðir janframt að Ingólfstorg verður heitasti partýstaðurinn í borginni á góðviðrisdögum.

Að sögn Bergdísar Örlygsdóttur, markaðsstjóra og eins eigenda, verður þemað mexíkósk fíesta þar sem mexíkóskur matur og stemning verða allsráðandi.

Boðið verður upp á klassíska mexíkóska rétti á borð við tacos, tostadas, fajitas, quesadillas og fleira. Að sjálfsögðu verði svo geggjaðar margarítur og kokteilar, ásamt góðu úrvali af tekíla og meskal.

„Ég held að þetta konsept passi vel inn í flóruna hjá okkur,“ segir Bergdís og bætir við aðspurð að sumarið sé að fara vel af stað almennt í borginni. „Það hefur verið mikið að gera á öllum okkar stöðum og við upplifum mikla gleði og stemningu hjá fólki."

Tres locos opnar innan skamms og yfirmatreiðslumeistari er Carlos Horacio Gimenez. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert