„Hér er matur sem þú færð hvergi annars staðar í heiminum“

Friðgeir Trausti
Friðgeir Trausti Ljósmynd/Facebook

Hótel Flatey er í miðju gamla þorpsins í Flatey, í hjarta Breiðafjarðar – þar sem töfrar og tímaleysi ráða ríkjum. Húsin í gömlu miðstöðinni eru timburvirki frá fyrri velmegunartímum eyjunnar og flest þeirra hafa verið endurreist í sínum upprunalega stíl. Veitingastaður Hótels Flateyjar er í Samkomuhúsinu sem var byggt árið 1890 og var endurgert af Minjavernd í núverandi mynd og opnuð þar veitingasala árið 2007 – og þar stóð kokkurinn Friðgeir Trausti Helgason vaktina af sinni alkunnu snilld er við náðum af honum tali.

Ljósmynd/Friðgeir Trausti Helgason

Undir áhrifum frá Los Angeles og New Orleans

Friðgeir Trausti á langan feril að baki við eldamennsku og kokkastörf, en hann hefur verið búsettur á erlendri grundu síðustu 35 árin. „Ég bjó í nokkur ár í hinni sólríku borg Los Angeles, en flutti svo til New Orleans þar sem ég lærði að kokka. Þar kynntist ég mörgum af bestu kokkunum í bransanum sem kenndu mér allt það sem ég bý að í dag. Eins lærði ég mikið af konunum sem voru að undirbúa matinn í eldhúsunum, þá vitna ég í þennan ekta bandaríska „soul food“, sem er vinsæll í Bandaríkjunum,“ segir Friðgeir Trausti.

Ljósmynd/Friðgeir Trausti Helgason

Frá 18 milljónum yfir í lítið samfélag

Friðgeir Trausti er frá Vestmannaeyjum. Hann býr meirihluta ársins í 18 milljóna manna stórborg en hefur komið síðustu fimm árin til Flateyjar til að elda yfir sumartímann – eyjar með 25 húsum sem öll hafa nöfn. Það er himinn og haf sem skilja samfélögin þar að. Áhrifin í matargerð kokksins eru frá Los Angeles og New Orleans, en undirstaðan í Flatey er alltaf íslenskt hráefni. „Matargerðin mín endurspeglar mig sem persónu. Hér í Flatey hefur matseðillinn verið að þróast hægt og rólega og er orðinn alveg minn núna. Hér er matur sem þú færð hvergi annars staðar í heiminum – og það er út af því hver ég er. Einfaldur, góður og strangheiðarlegur matur úr ekta íslensku hráefni með suðrænni sveiflu,“ segir Friðgeir Trausti.

Ljósmynd/Friðgeir Trausti Helgason

Spriklandi ferskur fiskur

Kokkurinn fer ekki langt til að sækja hráefnið í eldhúsið, því matarkistuna er að finna í Breiðafirði. Ferskt hráefni úr firðinum fagra! Eins safnar Friðgeir Trausti villtum jurtum og þara í Flatey ásamt því að sækja í eigin uppskeru í garðinum heima sem liggur við hótelið. Það er spriklandi ferskur fiskur annan hvern dag og matseðillinn er skrifaður á töflu sem breytist jafnan eftir skapi kokksins. „Ég vil hafa minna af réttum á matseðli, en þá góða. Ég býð alla jafna upp á þrjá til fjóra aðalrétti, þrjá forrétti og tvo til þrjá eftirrétti. Allt útfært og matreitt af alúð og úr besta hráefni landsins og víðar ef því er að skipta,“ segir Friðgeir Trausti.

Ljósmynd/Friðgeir Trausti Helgason

Ævintýraleg heimsókn

Fyrir þá sem þrá að anda að sér sveitaloftinu og næra bæði sálina og magann mælum við sannarlega með Flatey og matnum hans Friðgeirs. Það er ekki að ástæðulausu sem fólk flykkist að og betra er að panta borð til að fá öruggt sæti yfir sumartímann. Veitingastaðurinn er opinn alla daga frá kl. 8-21, en morgunmatur er framreiddur til klukkan tíu og hádegismatur frá tólf til þrjú – kvöldverður tekur síðan við um kl. 18. Opið er fyrir gesti og gangandi í kaffi, kökur og drykki yfir daginn, þar sem tekið er á móti öllum með bros á vör.

Ljósmynd/Friðgeir Trausti Helgason
Ljósmynd/Friðgeir Trausti Helgason
Ljósmynd/Friðgeir Trausti Helgason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert