Fóru í tryllta vinkonuferð til Vestmannaeyja

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Matarbloggarinn Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is og vinkonur hennar brugðu sér í húsmæðraorlof til Vestmannaeyja á dögunum og ljóst er að sú ferð verður seint toppuð. Framúrskarandi matur, gisting og veðurblíða gulltryggði magnaða upplifun í Eyjum sem er klárlega að verða vinsælasti mataráfangastaður landsins.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Fyrsta kvöldið eftir að við komum okkur fyrir í húsinu fórum við og fengum okkur pizzu á Pítsugerðinni og tókum rúnt um eyjuna. Það var undurfallegt veður þetta kvöld og horfðum við á sólsetrið við Stórhöfða, sem var algjörlega magnað. Þar gengum við líka aðeins um og skoðuðum lundana en það er betra að fara varlega áður en farið er út á grasbrúnir til að skoða lunda, líkt og við gerðum. Þarna hafa orðið slys á fólki og betra að halda fjarlægð,“ segir Berglind en hópurinn gisti á Westman Islands Villas & Apartments þar sem þær kjósa frekar vera í bústað/húsi en á hóteli til að geta eldað og spjallað saman í slíkum aðstæðum.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Daginn eftir fórum í eldfjallaferð með Volcano ATV og var virkilega gaman að stoppa og fræðast um ýmislegt sem gosinu tengist og fleira. Eftir fjórhjól skelltum við okkur í hádegismat á Tangann og fengum okkur Crépes og drykki. Síðan lá leiðin heim í hús í heita pottinn, slökun og síðdegissnittur á pallinum!“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Eftir heitan pott og huggulegheit tókum við okkur til og fórum út að borða á veitingastaðinn Einsa kalda. Þangað hef ég áður komið og mun klárlega koma aftur!“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Næsta dag byrjuðum við daginn á gönguferð inn í Herjólfsdal og planið var að ganga „Eggjarnar“ sem er gönguleið yfir dalnum. Við gengum upp vinstra megin þar sem búið er að setja upp góða stíga og tröppur nánast alla leið. Þegar upp er komið, er síðan hægt að ganga mjóan stíg ofarlega í hlíðinni og alla leið yfir og koma niður hægra megin í Dalnum eða fara aðeins lengra yfir og koma niður hjá Spröngunni.“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Til að gera langa sögu stutta þá enduðum við á að snúa við á miðri leið sökum lofthræðslu. Líklega hefðum við eins getað farið áfram eins og aftur til baka en þegar okkur var farið að svima, ákváðum við að segja þetta gott. Hugsa næst að ég gangi upp bratta stíginn hægra megin í dalnum og yfir að Spröngunni, sleppi „Eggjunum.“ Eftir gönguferð höfðum við okkur síðan til og fórum í bæinn. Byrjuðum á því að fá okkur síðbúinn hádegismat á Gott og það var sannarlega gott, gott, gott!“ segir Berglind og ljóst er að ferðin stóð undir öllum væntingum vinkvennanna.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Síðan röltum við um bæinn og fórum í búðir. Það eru fjölmargar skemmtilegar búðir í Vestmannaeyjum eins og Salka Verslun og Litla skvísubúðin með fatnað, Póley gjafavöruverslun og svo fengum við ábendingu frá Dadda vini mínum á leiðinni í Herjólfi um að kíkja í Kubuneh sem selur notuð föt. Þar fundum við eitt og annað og mæli ég með að allir kíki í heimsókn þangað. Það er gaman að segja frá því að Kubuneh er nafn á þorpi í Gambíu og allur ágóði af sölu varnings í versluninni rennur þangað, hversu dásamlegt framtak.“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Eftir mat þetta föstudagskvöld bauðst okkur síðan að kíkja í heimsókn til Einars í Aldingróðri, sem er gróðurhús og framleiðir sprettur. Það var virkilega gaman og áhugavert að fá að smakka og fræðast um þessar undurfallegu sprettur sem hann leggur hjarta sitt í að framleiða fyrir veitingastaði á Suðurlandi. Ég veit ekki með ykkur en ég væri alveg til í að hafa svona sprettubox við hendina þegar ég er að útbúa mat!


 

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert