Grillreglurnar sem þú verður að kunna

Það krefst ekki mikils að vera meistarakokkur við grillið – svo lengi sem við fylgjum gullnu reglunum sem eru alls ekki svo flóknar en ákaflega mikilvægar.

Þú þrífur ekki grillið nægilega vel eða nógu oft
Til að tryggja að maturinn á grillinu verði nægilega góður og til að passa upp á grillið þitt sem best – þá þarftu að sjá til þess að þrífa það endrum og sinnum. Þá tölum við um að hreinsa einnig smærri íhluti en ekki bara grindina og stjórntakkana.

Þú þarft að þekkja heitu staðina
Það er mikilvægt að vita hvaða hlutar grillsins gefa frá sér meiri hita en aðrir til að hámarka eldamennskuna. Til að sannreyna grillið er best að leggja brauðsneiðar þétt yfir alla grillgrindina – þá á meðan grillið er kalt. Lokaðu því næst grillinu og kveiktu undir. Þegar þú finnur lykt af ristuðu brauði skaltu slökkva á öllum brennurum. Snúðu brauðsneiðunum við og þá sérðu hvar grillið gefur frá sér mesta „blússið“.

Lyfta og pota
Það er freistandi að fylgjast vel með því sem er að gerast á grillinu. En það er óþarfi og í raun minnkar gæði eldamennskunnar með að vera alltaf að lyfta lokinu, snúa steikinni og pota. Og enn verra ef þú þrýstir á steikina, því þá lekur allur góði safinn úr kjötinu.

Svæði með minni hita
Það er mikilvægt að einhver partur af grillinu sé með minni hita en annar til að geta flutt þau hráefni yfir á svalari staði sem eru tilbúin.

Hafðu allt innan handar
Vertu skipulagður og taktu allt sem til þarf við grillið – tangir, krydd og annað sem til fellur. Gaktu úr skugga um að þú þurfir ekki að stíga mikið frá grillinu til að græja og gera eitthvað annað.

Missa matinn á milli teinanna
Það hafa allir lenti í því að missa grænmeti, rækjur eða annað á milli teinanna. Fjárfestu í grindum eða öðru slíku sem hjálpar til við að gera grillupplifunina enn betri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert