Áhrifavaldar æfir eftir PR klúður ársins

Ljósmynd/Instagram - Daily Harvest

Bandaríska fyrirtækið Daily Harvest hefur náð undraverðum árangri á einungis átta árum. Helgast það ekki síst af áberandi markaðssetningu á samfélagsmiðlum og samstörfum við áhrifavalda. Meðal þekktra einstaklinga sem hafa markaðssett vörur fyrirtækisins eru Gwyneth Palthrow og Serena Williams. Er fyrirtækið nú metið á yfir milljarð bandaríkjadala.

Þar til um daginn þegar hópur áhrifavalda kvartaði undan veikindum eftir að hafa borða linsubauna- og lauksúpu frá fyrirtækinu. Þótti fyrirtækið bregðast seint og illa við kvörtununum og svo fór að áhrifavaldarnir tóku málin í sínar hendur og vöruðu neytendur við.

Eðlilega fór allt í háaloft og hafa forsvarsmenn Daily Harvest verið sveittir við að bjarga þessu stórkostlega PR klúðri en að sögn áhrifavaldanna var ekkert annað í stöðunni en að láta neytendur vita þar sem þeir voru að nota sín áhrif til að mæla með vörunni – sem reyndist valda neytendum veikindum. Voru áhrifavaldarnir ekki síst óánægðir með viðbrögð fyrirtækisins en margir veiktust mjög illa og þurftu jafnvel að láta fjarlægja gallblöðru með skurðaðgerð.

Ekki er enn ljóst hvað olli veikindunum en í tilkynningu frá fyrirtækinu segir stofnandi fyrirtækisins, Rachel Drori, að málið sé litið mjög alvarlegum augum og unnið sé með yfirvöldum og fjölda rannsóknarstofa til að finna út hvað olli veikindunum.

Hvaða afleiðingar þetta mun hafa í för með sér skal ósagt látið á þessum tímapunkti en ljóst er að nauðsynlegt er fyrir fyrirtæki að hafa skýra viðbragðsáætlun ef mál sem þetta koma upp til að margfalda ekki tjónið sem verður.

 Heimild: CNN

mbl.is