Hugmyndin komin frá Hjörvari Hafliða

Eitt Sett hefur glatt bragðlauka íslenskra sælkera í áratugi og enn lengur hefur knattspyrna verið eftirlætisíþrótt þjóðarinnar. Samstarf Nóa Síríus og Bestu deildarinnar er því vel við hæfi og nú hefur af því tilefni verið þróuð sérstök útgáfu af súkkulaðinu sívinsæla. Besta Settið er ljúffengt pralín súkkulaði, fyllt með lungamjúkri Eitt Sett-lakkrísfyllingu.

„Okkur langaði að gera eitthvað sérstakt í tilefni af samstarfinu við Bestu deildina og erum viss um að Besta Settið muni falla vel í kramið hjá íslenskum neytendum,“ segir Alda Björk Larsen, markaðsstjóri Nóa Síríus.

Stytti nafnið og það festist

„Hugmyndin varð reyndar til utanhúss því hún er komin frá Hjörvari Hafliðasyni, sem margir þekkja sem Dr. Football. Upphaflega heitið á vörunni var Bestu deildar Eitt Sett en framleiðslustjóranum okkar fannst það eitthvað stirt í munni og stytti nafnið í Besta Settið. Það nafn festist í kjölfarið við vöruna, enda finnst okkur það eiga mjög vel við þetta gómsæta súkkulaði,“ segir hún skellihlæjandi.

Eitt Sett var fyrst framleitt í upphafi níunda áratugarins og sameinaði lungamjúkan lakkrís og ljúffengt rjómasúkkulaði. Besta Settið er fjórða útgáfan af Eitt Sett og bætist við Risa Eitt Sett súkkulaðistykkið, Eitt Sett bita í endurlokanlegum pokum og svo auðvitað klassísku Síríuslengjuna með lakkrísborðanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert