Nýtt heimsmet slegið með banönum

Heimsmet með bönunum var slegið nú á dögunum.
Heimsmet með bönunum var slegið nú á dögunum. Mbl.is/Jewel-Osco

Það hlaut að koma að því að bananar myndu slá svo rækilega í gegn að þeir rati í heimsmetabók Guinness.

Framleiðslufyrirtækið Fresh Del Monte og matvörukeðjan Jewel-Osco, slógu heimsmet nú á dögunum eftir að hafa eytt heilum þremur dögum í að byggja upp svaðalegan vegg með bogna ávextinum. Þessi kalíumpakkaða innsetning var staðsett í Westmont, Illinois – þar sem hvorki meira né minna en 211.200 bananar voru notaðir í verkið, eða 1.920 bananakassar á 40 vörubrettum.

Ástæðan fyrir verkinu var einfaldlega sú, að matvörukeðjan selur meira af bönunum daglega en af nokkur annari vöru og því kom ekkert annað til greina en bananar í þennan risastóra skúlptúr – sem gefur nánast ofbirtu í augun fyrir heiðgulan lit sinn. Dómari frá Heimsmetabók Guinness var á staðnum til að staðfesta metið, sem sló fyrra met út af borðinu – en það voru sítrusávextir sem settir voru upp hjá annari matvöruverslun fyrr á árinu. Og eftir að metið hafði verið slegið, var gestum og gangandi gefnir bananar til að taka með heim.

Mbl.is/Jewel-Osco
mbl.is