Opna loksins mathöll á Akureyri

mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Kristján Kristjánsson vinnur nú að því að opna mathöll við Glerárgötu 28 á Akureyri. Þar hefur hann tekið á leigu um 1.000 fermetra húsnæði þar sem áður var rekin prentsmiðjan Ásprent.

Heilmiklar framkvæmdir eru fram undan en Kristján vætir þess að búið verða að ljúka teikningum og öðru í haust og í framhaldinu verði hægt að byrja á þeim breytingum sem fyrirhugað er að gera á húsnæðinu.

Hann segir að fremst í húsinu á þeirri hlið sem snýr út að Glerárgötu verði notalegt lítið kaffihús og nokkrar smáverslanir einkum þar sem áhersla er lögð á að selja heimaunnin varning eða bein frá býli. Í miðrýminu verða 7 til 8 veitingastaðir og leggur Kristján áherslu á að bjóða fjölbreytt úrval og góð gæði. „Það er mikil spenna fyrir þessu, margir hafa haft samband og vilja vera með en þetta er ekki komið svo langt að búið sé að ákveða það,“ segir hann.

Spenntur fyrir nýjum kafla

Á hinni hlið hússins, sem snýr að Hvannavöllum, er ætlunin að setja upp fjölskylduvænan veitingastað. Sögu hússins sem tengist prentiðnaði verða gerð góð skil, en Kristján hefur hug á að skreyta umhverfið með gömlum vélum og öðru sem tengist sögunni.

„Það er nýr kafli að hefjast í mínu lífi og ég er mjög spenntur,“ segir Kristján. Hann væntir þess að hægt verði að opna eftir 6 til 8 mánuði, en er viðbúinn því að tafir verði vegna ástandsins bæði í heiminum og eins viti hann að mikið sé að gera hjá öllum iðnaðarmönnum sem heldur betur þurfa að taka til hendinni við þær breytingar sem fram undan eru.

Kristján flutti til Akureyrar frá Bretlandi, en hann hefur komið við sögu í veitinga- og skemmtanabransanum hér á landi frá 16 ára aldri. Sonur hans er við nám í bifvélavirkjun í Verkmenntaskólanum á Akureyri og ákvað Kristján að fylgja honum. „Ég kann vel við mig fyrir norðan, stemmningin er róleg og góður andi í bænum,“ segir hann.

Kristján nýtur aðstoðar Kollgátu arkitektastofu við hönnun og einnig mun Sir Arnar Gauti leggja sitt lóð á vogarskálar við útlitið. Til stendur að bjóða listamönnum að sýna verk sín á veggjum bjóða gestum að kaupa beint þaðan. „Ég er með alls konar hugmyndir og hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni,“ segir Kristján og finnur nú þegar að Akureyringar eru fullir eftirvæntingar á fá mathöll í bæinn.

Kristján Kristjánsson ætlar að opna mathöll við Glerárgötu 28 á …
Kristján Kristjánsson ætlar að opna mathöll við Glerárgötu 28 á Akureyri. Hann væntir þess að hægt verði að opna eftir 6 til 8 mánuði. Í húsinu rak Ásprent – Pob prentsmiðju í áraraðir og er ætlunin að gera prentiðnaði skil í mathöllinni. Hér er Kristján við mynd af einum af þeim sem við þá sögu kom á Akureyri, Reyni Hjartarsyni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert