Skyrkakan sem enginn stenst

Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Skyrkökur eru algjör dásemd og hér erum við með uppskrift frá Berglindi Hreiðars á Gotteri.is sem er með matarlími og hægt er að skera í sneiðar.

„Skyrkökur eru eitthvað sem enginn stenst. Ég þori varla að viðurkenna það en ég hef aldrei áður gert skyrköku með matarlími sem hægt er að skera í sneiðar, alltaf bara í stóra skál eða lítil glös. Ég hef hins vegar gert ótal ostakökur á þennan máta svo það var sannarlega kominn tími til að prófa. Látið matarlímið alls ekki hræða ykkur, það er ekkert mál að nota það, bara fylgja uppskriftinni!“ segir Bergind.

Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Skyrkaka uppskrift

Botn

 • 260 g hafrakex
 • 100 g brætt smjör

Aðferð:

 1. Setjið bökunarpappír í botninn á um 20-22 cm smelluformi.
 2. Myljið hafrakex í blandara þar til það er orðið duftkennt.
 3. Blandið bræddu smjöri saman við og þjappið í botninn á smelluforminu, setjið í frystinn á meðan þið útbúið fyllinguna. 

Fylling

 • 350 ml rjómi
 • 2 msk. flórsykur
 • 2 tsk. vanillusykur
 • 500 g KEA skyr með jarðarberjum og bláberjum
 • 5 matarlímsblöð
 • 50 ml mjólk

Aðferð:

 1. Leggið matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn í nokkrar mínútur.
 2. Hitið mjólkina í potti, takið matarlímsblöðin upp úr vatninu, eitt í einu og vindið út í heita mjólkina. Hrærið vel á milli hvers og þegar blöðin eru öll uppleyst má hella blöndunni í skál og leyfa hitanum að rjúka úr á meðan þið undirbúið annað.
 3. Þeytið rjóma, flórsykur og vanillusykur saman.
 4. Vefjið skyrinu saman við rjómablönduna og hellið næst matarlímsblöndunni í mjórri bunu saman við og blandið vel saman.
 5. Hellið yfir kexbotninn í smelluforminu og setjið í kæli í að minnsta kosti 5 klukkustundir eða yfir nótt.
 6. Skerið síðan meðfram hringnum á forminu að innan áður en þið losið hliðarnar frá og flytjið kökuna yfir á fallegan disk.

Skreyting

 • Ber eftir eigin ósk
 • Saxað suðusúkkulaði
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is