Auðveldasta grillmáltíð síðari ára

Heilgrillaður kjúklingur er í margra hugum áhættuatriði sem kallar á flókinn búnað og miseldað kjöt. Matarvefurinn fékk það verkefni að grilla svokallaðan butterfly-kjúkling þessa vikuna en það er kjúklingur sem búið er að fletja út til að auðveldara sé að grilla hann.

Einhverjir klóruðu sér í kollinum og voru efins en farið var af stað í þeirri von að þetta væri jafn snjöll hugmynd og hún virtist vera.

Kjúklingurinn kemur tilbúinn í sítrónu- og rósmarín-marineringu. Því þarf bara að skella honum beint á grillið. Að auki var búin til kryddblanda úr fersku kóríander, rifnum lime-berki, lime-safa, salti og ólífuolíu sem var penslað á kjúklinginn með rósmaríngreinum. Með þessu var svo grillað meðlæti sem var tilbúið í bökkum.

Það tekur vissulega smá stund að grilla kjúklinginn enda betra að tryggja að hann sé eldaður í gegn en útkoman var hreint frábær. Kjötið var meyrt og mjúkt, bráðnaði í munni og grillbragðið kom vel í gegn.

Niðurstaða: Butterfly-kjúklingur hentar vel á grillið og bragðast frábærlega.

Butterfly-kjúklingur með sítrónu og rósmarín

Kryddolía

  • Ferskt kóríander
  • Rifinn lime-börkur
  • Safi úr einu lime
  • Sjávarsalt
  • Ólífuolía

Dressing

Takið tvær matskeiðar af kryddolíunni (meira af jurtum, minna af olíunni) og blandið saman við sýrðan rjóma

Meðlæti

  • Kirsuberjatómatar og mozzarella
  • Smælki
  • Grillgrænmeti

Allt grænmeti kom tilbúið í bökkum, beint á grillið.

Allir Grilla verkefnið er unnið í samstarfi við Hagkaup
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert