Mathöllin VERA opnar í Vatnsmýri á föstudaginn

Ljósmynd/VERA

Matarunnendur hafa ástæðu til að gleðjast því nú á föstudaginn opnar mathöllin VERA í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýri.

„Við erum yfir okkur spennt að þetta sé loksins að verða að veruleika,“ segir Björn Bragi Arnarsson, einn af eigendum VERU.

Í VERU verða átta veitingastaðir. Pünk Fried Chicken sem hefur starfað í Gróðurhúsinu í Hveragerði, pizzastaðurinn Natalía úr Borg29 og vínbarinn og kaffihúsið Mikki Refur af Hverfisgötu. Hinir fimm staðirnir eru nýir en þar er um að ræða mexíkóska staðinn Caliente, Bang Bang sem sérhæfir sig í asískum mat, súpustaðinn Næru, morgunverðarstaðinn Stund og loks Furu sem er nýr staður í eigu verðlaunakokksins Denis Grbic.

„Þetta er svakalega flottur hópur af spennandi veitingafólki, reynsluboltar úr bransanum í bland við ný og fersk andlit. Ég gæti ekki verið ánægðari með samsetninguna af stöðum. Ég held að ég geti lofað því að allir eigi eftir að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Björn.

Hönnun VERU er öll hin glæsilegasta en hún var í höndum Hafsteins Júlíussonar og hönnunarstofu hans, HAF Studio. „Hafsteinn og hans fólk eiga mikið hrós skilið. Þau hafa náð að skapa ótrúlega flotta heild þannig að fólki líður eins og það sé að koma inn á einn stóran veitingastað, en á sama tíma ná hinir átta ólíku staðir að njóta sín hver fyrir sig.“

Björn er fullviss um að í VERU verði mikil stemning og að þar muni fólk koma til með að eiga góðar samverustundir í framtíðinni. „Við hlökkum mikið til að taka á móti fólki í mat og drykk,“ segir Björn.

Ljósmynd/VERA
Hafsteinn Júlíusson og Björn Bragi Arnarson.
Hafsteinn Júlíusson og Björn Bragi Arnarson. Ljósmynd/VERA
Ljósmynd/VERA
Ljósmynd/VERA
Ljósmynd/VERA
Ljósmynd/VERA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert