Heimagerður sjeik sem klikkar ekki

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Það er fátt meira viðeigandi en góður ís eftir vel heppnaða máltíð og hér erum við með dýrindis jarðarberja- og bananasjeik úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttur á Gotteri.is. Hér ræður einfaldleikinn ríkjum en hún segir að það skipti máli að velja góðan ís því hann sé grunnurinn að öllu saman. Ekki er verra að vera með svona flott glös enda er framsetningin hér alveg upp á tíu!

Jarðarberja- og bananasjeik

Uppskrift dugar í um þrjú glös

  • 600 g Häagen-Dazs jarðarberjaís, 1 ½ dós
  • 1 banani
  • 330 ml nýmjólk
  • Súkkulaðisósa
  • Hnetukurl
  • Þeyttur rjómi
  • Jarðarber og bananasneiðar
  • 3 grillprik

Aðferð:

  1. Útbúið ávaxtaprikin með því að raða jarðarberjum og bananasneiðum upp á langt grillspjót, raðið efst á spjótið og niður um 1/3 hluta þess, geymið.
  2. Þeytið rjómann og setjið í sprautupoka eða hafið rjóma tilbúinn í rjómasprautu.
  3. Dýfið hverju glasi í súkkulaðisósu og veltið upp úr hnetukurli, sprautið einnig smá súkkulaðisósu inn á hliðar glassins.
  4. Setjið næst ís, mjólk og banana í blandara og blandið vel.
  5. Skiptið sjeiknum niður í glösin og toppið með þeyttum rjóma og smá hnetukurli.
  6. Stingið ávaxtaprikinu í glasið og njótið!
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert