Uppskriftin sem kemur þér svakalega á óvart

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Hér erum við með uppskrift sem hittir alltaf í mark. Höfundur hennar er engin önnur en Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir en bökur sem þessar passa alltaf.

„Galette er dásamlega einföld baka að mínu mati, það þarf t.d. engin form né sérfræðikunnáttu í bökugerð, bara fletja út, setja fyllinguna á og brjóta upp kantana. Einfalt ekki satt? Þessi er frábær við ýmis tilefni, í hádeginu á góðum sumardegi, í brönsinn eða sem léttur kvöldmatur með góðu salati, segir Guðrún Ýr um uppskriftina og við tökum heilshugar undir.

Galette baka með tómat og basilíku

Deig

 • 200 g hveiti
 • 100 g kalt smjör
 • 60 ml kalt vatn
 • 1 tsk. salt

Fylling

 • 6 stk. tómatar
 • handfylli af ferskri basilíku
 • 1 msk. maizenamjöl
 • 1 tsk. gróft salt
 • pipar, eftir smekk
 • 1 dós mozzarella kúlur (180 g)
 • 1 msk. kalt smjör
 • 1 stk. egg til að pensla

Deig

 1. Hér er mikilvægt að bæði smjör og vatn sé kalt og gott er að skera smjörið í litla kubba.
 2. Setjið öll hráefnin saman í matvinnsluvél og hrærið saman í 1-2 mín.
 3. Hellið þá úr skálinni á borð og mótið kúlu úr deiginu.
 4. Setjið deigið í plast og þrýstið aðeins niður á deigið svo það sé auðveldara að rúlla það út.
 5. Kælið í klst.

Bakaðir tómatar

 1. Stillið ofn á 200°C.
 2. Skerið tómatana í u.þ.b. cm breiðar sneiðar og leggið á bökunarpappírs klædda ofnplötu.
 3. Setjið tómatana inn í ofn í 20-25 mín. Þetta er gert til að draga úr vökvanum á tómötunum og þeir verða alveg dásamlega sætir við þetta.
 4. Takið tómatana út úr ofninum og leyfið þeim að hvíla meðan þið fletjið út deigið.

Samsetning

 1. Stillið ofn á 200 °C.
 2. Takið deigið úr ísskápnum og fletjið út í u.þ.b. 30 cm breiðan hring.
 3. Setjið deigið á bökunarpappírs klædda ofnplötu.
 4. Sáldrið maizena mjöli yfir en það er gert til að draga smá vökva í sig frá tómötunum.
 5. Raðið tómötunum og basilíkunni ofan á deigið en skiljið 2-3 cm eftir að kanti.
 6. Dreifið þá mozzarella kúlum yfir tómatana og sáldrið salti og pipar yfir.
 7. Þá er það bara að brjóta kantana inn og passa að það séu ekki glufur í deiginu svo það leki ekkert af fyllingunni úr við bakstur.
 8. Gott er að setja nokkra smjörklumba yfir fyllinguna og svo er bara að pensla deigið með eggi.
 9. Bakið í 25-30 mín og leyfið bökunni að kólna í 5-10 mín.
Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
mbl.is