Halva Brownies að hætti Maríu Gomez

Ljósmynd/María Gomez

Það eru fáir flinkari en María Gomez á Paz.is í að fullkomna uppskriftir að réttum sem hún hefur smakkað. Hér kynnir hún okkur fyrir því sem kallast Halva Brownie sem hún smakkaði á kaffihúsi í Washington í sumar en Halva er mið-austurlenskt sælgæti gert úr tahíní.

„Ég verð að segja að ég vissi ekkert hvað ég var að kaupa þegar ég fékk mér Brownie með Halva, en Halva er eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um. Það er akkurat það sem ég leitast eftir þegar ég fer til nýrra staða, eitthvað sem ég hef aldrei prófað.

Það tók mig fimm tilraunir að ná Halva maukinu réttu, og þannig að það yrði auðvelt fyrir ykkur að gera það. Ég held mér hafi tekist það og útkoman voru dásamlegar Halva brownies, ekki svo ólíkar þeim sem ég fékk á Tatte.

Ég myndi samt segja að þessar Brownies séu meira svona fullorðins en ekki fyrir krakka, dásamlegar með kafibollanum og ótrúlega auðveldar að gera.“

Halva Brownies að hætti Maríu Gomez

Brownie deig

 • 220 g smjör
 • 375 g sykur
 • 120 g bökunarkakó
 • 1 tsk. fínt borðsalt
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 3 köld egg
 • 95 g hveiti

Halva krem

 • 200 g tahini ljóst
 • 180 g sykur
 • 1/2 bolli vatn eða 120 g

Aðferð

Brownie deig

 1. Skerið smjörið niður í teninga og setjið í skál, ásamt sykrinum, kakóinu og saltinu
 2. Setjið svo skálina yfir vatnsbað (Þá er vatn sett í botninn á potti og látið hitna og skálin svo sett ofan á pottinn án þess að hún snerti vatnið en vatnið þarf að vera heitt allan tímann)
 3. Látið skálina vera yfir vatnsbaði og hrærið reglulega í með sleikju þar til allt hefur bráðnað saman í skálinni og orðið að fallega glansandi súkkulaði mauki
 4. Takið þá skálina af pottinum og kælið í 5 mín
 5. Setjið næst vanillludropa út í skálina og svo eitt egg í einu og hrærið hverju eggi vel inn í deigið, einu í einu með sleikju eða sleif, þar til allt er glansandi fínt og vel blandað saman
 6. Bætið svo hveitinu útí og hrærið áfram saman með sleiku í eins og 40-50 hringi en hér er í lagi að ofhræra svo kökurnar fái á sig seiga áferð eins og við viljum hafa brownies
 7. Setjið næst álpappír ofan í mót sem er c.a 20x30 cm (ég fékk mitt í Ikea eins og þetta hér). Látið álpappírinn standa upp á sitthvorn endanum svo hægt sé að taka kökuna upp úr mótinu með álpappírnum
 8. Hellið deiginu út í mótið án þess að smyrja álpappírinn
 9. Bakið svo á 165 °C blæstri á í 20-25 mín en ég bakaði mínar í akkurat 23 mín. Gott er að stinga hníf í miðja kökuna og ef það kemur eins og mylsna á hnífinn en ekki blautt deig þá er hún til
 10. Takið þá kökuna upp úr mótinu með því að taka í álpappírinn sem stendur upp úr og leggjið á kæligrind eða skurðarbretti og látið hana kólna. Gerið Halva kremið á meðan hún kólnar

Halva krem

 1. Setjið sykurinn og vatnið saman í kaldann pott og hrærið vel saman
 2. Setjið næst pottinn á eldavélarhellu stillta á hæsta hita og látið suðuna koma upp þar til bullsýður
 3. Ekki hræra neitt í sykurvatninu heldur leyfið því að bullsjóða á hæsta hita, eða háum hita í sléttar 11 mínútur án þess að hræra
 4. Verið búin að velgja upp tahíni í stærri potti en það á að verða bara svona mjúkt og fljótandi og hægt að snerta pottinn á hliðunum án þess að brenna sig (passa að hitinn fari ekki yfir 50 °C þá verður tahínið rammt á bragðið)
 5. Þegar sykurvatnið hefur soðið í akkurat 11 mínútur, hellið því þá yfir í pottinn með tahínínu í og byrjið strax að hræra hratt þar til er orðið eins og þykk sósa. Ekki hræra of mikið heldur bara þar til rétt þykknar, annars verður það þurrt og molnar
 6. Hellið kreminu svo yfir kökuna og látið kólna í kæli eða við glugga þar til kremið er orðið þykkt og aðeins búið að stífna
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is