„Viljum stimpla Vestmannaeyjar inn”

Gísli Matthías
Gísli Matthías Kristinn Magnússon

Matarhátíðin Matey verður haldin í Vestmannaeyjum 8. – 10. september næstkomandi og þar eiga matgæðngar von á mikilli veislu.

Í Eyjum er að finna nokkra af fremstu veitingastöðum landsins og sífellt fleiri gera sér ferð þangað til þess eins að gæða sér á góðum mat. Til marks um þetta voru Vestmannaeyjar tilnefndar til hinna norrænu Emblu verðlauna sem Besti mataráfangastaður norðurlanda.

Spennandi gestakokkar verða á stærstu veitingastöðunum og þar er sjálfsagt fremstur í flokki Leif Sörensen sem er maðurinn á bak við Michelin-staðinn KOKS í Færeyjum. Leif verður gestakokkur á Slippnum þar sem Gísli Matthías Auðunnsson tekur á móti honum en þeir félagar þekkjast vel.

Við Leif erum miklir vinir og höfum brallað ýmislegt í gegnum tíðina og verið með nokkur pop-up saman. Hann hefur aftur á móti aldrei komið til Eyja og því fannst mér kjörið tækifæri að fá hann hingað enda einn af mestu frumkvöðlum í nýnorrænni matargerð,” segir Gísli en áhugavert verður að sjá útkomuna úr samstarfi þeirra félaga.

„Við náum mjög vel saman enda er náttúran í Færeyjum ekki ólík hér á Heimaey og við erum líka líkir að því leytinu til að við viljum hrein brögð og reynum að hafa framsetningu matarins eins einfalda og hægt er. Leif er algjör snillingur í að nota fá hráefni í það að gera frammúrskarandi matarupplifun,” segir Gísli en bókanir á viðburðinn hafa hrannast inn og ættu matgæðingar ekki láta þetta tækifæri sér úr greipum renna.

Gísli segir hátíðina afar mikilvæga fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og matvælaframleiðendur á Eyjunni. „Við viljum stimpla Vestmannaeyjar inn sem helsta mataráfangastað á Íslandi og það næst ekki nema allir taki höndum saman og láti það gerast. Það eru bæði frammúrskarandi stórir og litlir matarframleiðendur hér sem koma vel að hátíðinni og við á veitingastöðunum viljum gera hráefninu héðan góð skil. Það er líka frábært að fá gestakokkana til þess að koma með sína sýn á hráefnin sem bæði eru af þeim toga að við lítum á sem hversdagsleg eða framandi. Það er heiður að fá þau með sinn bakgrunn og sína sýn og í sameiningu búa til eitthvað sem hefur ekki verið gert áður.”

Sjálfur hefur Gísli í nógu að snúast enda nóg að gera. „Það er alltaf nóg að gera en núna er allur minn fókus í að halda áfram að byggja upp það sem við fjölskyldan erum að reka bæði Slippinn og nýja staðinn okkar Næs sem hefur farið mjög vel af stað. Slippurinn lokar eftir sumarið á lokadegi Mateyjar þann 10. september en Næs mun vera opinn árið um kring. Það eru forréttindi að vera í þeirri stöðu að halda áfram þeirri þróun að reka sinn eigin veitingastað þar sem engin dagur er eins.”

mbl.is