Sellerísafahreinsun er nýjasta heilsuæðið

Síðustu mánuði og ár hefur fólk talað um sellerí eins og það sé allra meina bót. Þetta bragðdaufa vandræðalega stilkastúss sem fæstir borða nema með ídýfu eða falið í öðrum réttum – er það í alvörunni lausnin við líflausu hári og bólóttri húð? Og getur í alvörunni skolað út óæskilegum efnum svo sem nikkel og hreinsað kroppinn eftir áfengisneyslu?

Tobba Marinósdóttir Granólabarsgreifynja er ein þeirra sem segjast loks hafa tekið sellerí í sátt eftir að viðskiptavinur hennar á Granólabarnum fór að sérpanta sellerísafa til að ná betri heilsu í kjölfar mikilla veikinda. „Þessi viðskiptavinur bað um fimm nýpressaðar flöskur af ósíuðum sellerísafa svo hún gæti byrjað hvern morgun á að drekka safann á fastandi maga. Lifrin í henni var farin að starfa mjög illa í kjölfar veikinda og eftir að hafa lesið sér mikið til ákvað hún að prófa sellerísafahreinsun. Eftir nokkrar vikur kom hún til mín og sagði að nýjustu mælingar og gildi hefðu komið mikið betur út eftir hreinsunina. Ég uppveðraðist við þessar upplýsingar, samgladdist minni konu mikið og vildi endilega að fleiri prófuðu hvort sellerísukkið heilnæma gæti aðstoðað fólk við heilsubresti.“

Galdrabrúskur

Tobba segist sérpressa safa fyrir fólk sem þarf að losa út óæskileg efni svo sem nikkel. „Kunningjakona mín ein er með nikkelofnæmi og fær mikil útbrot ef þau safnast upp. Hún segir safann losa sig vel undan því. Önnur sem verslar mikið hjá mér segist sjá að lifrin sé miklu glaðari þegar hún drekkur safann því augnhvítan sé mun hvítari.“

Sellerísafinn er ekki bara hreinsandi, blóðaukandi, bólgueyðandi og virkar sem náttúrulegt þvagræsilyf (vatnslosandi) því sellerí er einnig járnríkt og inniheldur magnesíum og A-vítamín. Heilu bækurnar og vefsíðurnar eru tileinkaðar selleríi svo einhver galdur hlýtur að felast í grængulu brúskunum.

Margir hafa talað fyrir göldrum sellerísafans svo sem Kolbrún grasalæknir og metsöluhöfundurinn Anthony William sem hefur byggt allan sinn feril á selleríi. „Það er um að gera að prófa segi ég! Hvort sem fólk djúsar selleríið sjálft eða pantar hjá okkur á granola.is þá er þetta ekki það vitlausasta sem þú gerir. Því lofa ég,“ segir Tobba og hlær en hún ætlar sjálf að drekka sellerísafa alla morgna í september.

Mælt er með að drekka 300-500 ml af sellerísafa á fastandi maga á morgnana og borða ekkert annað fyrr en 30 mínútum seinna. „Þeir sem prófa þetta í fjórar vikur ættu að finna mun. Til dæmis á bólgum í líkamanum. En ekki fríka út þótt það verði töluverð útlosun og fólk þurfi kannski meira á klósettið fyrstu dagana. Já og þetta er kannski ekki besti safi í heimi en þú bara þrælar þessu hlæjandi í þig!“ segir Tobba.

Besta gegn þynnku?

Annað töfraefni við hreinsun er mjólkurþistill að sögn Tobbu. „Ég nota hann mikið við lifrarhreinsun og gerði hávísindalega tilraun með hann fyrir skemmstu þegar ég lét 24 konur taka hann kvölds og morgna í skemmtiferð til að koma í veg fyrir lágskýjun daginn eftir að skálað var. Þær komu allar órispaðar undan helginni og jafnvel sú sem verður alltaf lasin eftir að hafa vöðkvað sig.“

Mjólkurþistill á sér langa hefð sem lækningajurt og inniheldur virka efnið Sylimarin sem örvar starfsemi næði lifrar og nýrna. Efnin í mjólkurþistli hjálpa lifrinni við myndum nýrra frumna og eru þannig náttúruleg hreinsun fyrir lifrina. Þistillinn hefur andoxunarvirkni og hjálpar til við að losa óæskileg efni úr líkamanum til dæmis eftir áfengisneyslu – ef einhver vogar sér slíkt.

Tobba segist nota mjólkurþistill frá Iceherbs því hann innihaldi einnig fjallagrös sem eru í miklu uppáhaldi hjá henni. „Langalangafi, dr. Jónas Kristjánsson, stofnandi Heilsustofnunnarinnar í Hveragerði, hafði miklar mætur á fjallagrösum og það af ríkri ástæðu. Þau eru þekkt sem ginseng Íslands og innihalda betaglúkantrefjar sem stuðla að þyngdartapi, bæta meltingu og styrkja þarmana. Fjallagrös eru rík að steinefnum, einkum járni og kalsíum, og bera í sér fléttuefni sem hindra óæskilegar bakteríur og draga úr bjúg. „Það er því tilvalið að taka mjólkurþistil með selleríhreinsun til þess að fá enn öflugri niðurstöðu,“ segir Tobba.

Tobba Marínós
Tobba Marínós
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert