Rjómalöguð brokkolísúpa með osti

Ljósmynd/Helena Gunnars

Hér er á ferðinni hin fullkomna haustsúpa sem hlýjar okkur inn að hjartarótum. Rjómalöguð og dásamleg með ljúfu ostabragði. Camembert smurosturinn passar einstaklega vel í þessa súpu, auk þess sem hann gefur henni ljúffengt bragð, þykkir hann súpuna og gefur henni silkimjúka áferð. Það er engin önnur en Helena Gunnarsdóttir sem á heiðurinn að uppskriftinni.

Rjómalöguð brokkolísúpa með osti

  • 2 msk. smjör
  • 1 stk. laukur
  • 2 stk. brokkolíhöfuð, eða tvö minni
  • 500 ml matreiðslurjómi eða rjómi frá Gott í matinn
  • 500 ml vatn
  • 2 msk. kjúklinga- eða grænmetiskraftur
  • 300 g Camembert smurostur, 1 dós
  • 1 tsk. paprikukrydd
  • salt og pipar eftir smekk
  • rifinn cheddar ostur frá Gott í matinn

Aðferð:

  1. Skerið laukinn smátt og steikið í potti upp úr smjörinu þar til hann mýkist.
  2. Skerið allt brokkolíið í litla bita en geymið efsta partinn (blómin) þar til seinna. Setjið stilkana gróft saxaða í pottinn og hellið yfir rjóma og vatni ásamt kraftinum. Leyfið þessu að sjóða í 5-10 mínútur eða þar til brokkolíið er soðið í gegn.
  3. Maukið súpuna nú með töfrasprota eða setjið í matvinnsluvél.
  4. Setjið súpuna aftur yfir hitann og bætið smurostinum saman við ásamt kryddinu og efsta hlutanum af brokkolíinu.
  5. Leyfið þessu að malla við vægan hita í 10 mínútur og smakkið ykkur til.
  6. Berið súpuna fram með rifnum cheddar osti og hrærið einnig dálitlum rifnum osti saman við súpuna.
Ljósmynd/Helena Gunnars
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert