„Undrabarn“ í víngerð sækir Ísland heim

Dominik Sona (lengst til vinstri) ásamt samstarfsfólki sínu við Koehler-Ruprecht …
Dominik Sona (lengst til vinstri) ásamt samstarfsfólki sínu við Koehler-Ruprecht víngerðina. Ljósmynd/Aðsend

Þegar veitingahúsið Akur við Austurhöfn opnaði dyr sínar fyrr í sumar ráku margir vínáhugamenn augun í það að á vínseðli staðarins, sem er langur og margslunginn, að þar leyndust all margir árgangar af hvítvínum og rauðvínum frá þýska framleiðandanum Koehler-Ruprecht.

Kom það helst á óvart vegna þess að þessi vín hafa aldrei verið í boði hér á landi og einnig af þeirri ástæðu að það er ekki auðvelt að komast í þau. Áhuginn á þeim er mikill og margir af fremstu veitingastöðum heimsins leggja áherslu á að bjóða upp á þessi vín.

Dominik Sona stýrir Koehler-Ruprecht og hefur gert frá unga aldri en hann tók við stjórn víngerðarinnar árið 2014. Hann hefur aukið hróður hennar mikið. Hann ætlar að sækja Akur heim á fimmtudagskvöldið og stýra þar matar- og vínpörun þar sem sex vín úr kjallara Koehler-Ruprecht verða í kastljósinu. Þessi sama pörun verður svo í boði fyrir aðra gesti Akurs frá föstudegi og fram á sunnudag.

Koehler-Ruprecht er starfrækt í þorpinu Kallstadt í Pfalz í Þýskalandi en þetta svæði er aðeins 50 kílómetra frá landamærum Frakklands. Svipar ræktunaraðstæðum þar að mörgu leyti til þess sem gerist t.d. í Champagne en á síðustu árum hafa t.d. rauðvínin frá Koehler-Ruprecht hlotið sífellt meira lof enda kjöraðstæður til ræktunar Pinot Noir þrúgunnar á svæðinu.

Fyrst og síðast er húsið þó þekkt fyrir þurr og spennandi Riesling-hvítvín sem koma í þremur sætleikastigum. Kabinett, Spätlese og Auslese. Þessi vín parast mjög vel með mat og eru ólík mörgum þeim Riesling-vínum sem Íslendingar hafa átt að venjast á síðustu árum og áratugum.

Vínin frá Koehler-Ruprecht eru í raun náttúruvín en Dominik hafnar þeirri nálgun að víngerðarmenn eigi að verja tíma sínum í að fylla út skýrslur til þess að hljóta vottanir fyrir hinu og þessu. „Tíma mínum er betur varið á ekrunum eða í vínkjallaranum fremur en við skýrsluskrif“ hefur hann látið hafa eftir sér. Hann sækir mjög í gamlar hefðir í handverki sínu og hann hafnar þeirri viðteknu nálgun sem lengi hefur verið stunduð í þýskri víngerð að bæta miklu magni sykurs í vínin. Hann vill að þau tali sínu máli sjálf og tryggir að náttúruleg sæta í uppskerunni sé næg til þess að gera vínin ljúffeng.

Koehler-Ruprecht rekur sögu sína aftur um 300 ár en víngerðin sjálf er starfrækt í húsnæði þar sem víngerð hefur verið stunduð frá því á 16. öld. Það sem einkennir framleiðsluna er mikil notkun risastórra eikartunna. Þrátt fyrir það hafa vínin ekki eikaða áferð. Allt vínið er geymt á þessum risastóru og gömlu tunnum, sem sumar hverjar eru allt að 120 ára gamlar. Með notkun svo gamalla tunna hefur eikin sem slík ekki teljandi áhrif á vínið en áferð vínsins breytist, ekki síst vegna þess að það kemst með náttúrulegum hætti í samband við súrefni, án þess að brjóta það niður.

Eikartunnurnar hjá Koehler-Ruprecht eru margar afar vígalegar.
Eikartunnurnar hjá Koehler-Ruprecht eru margar afar vígalegar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Loka