Royalistar Íslands búa sig undir útför drottningar

mbl/AFP

Það hefur vart farið framhjá neinum að útför Elísabetar Bretadrottningar fer fram á morgun og hafa margir fengið frí í vinnu til að geta safnast saman og fylgst með en útförin verður í beinni útsendingu á RÚV.

Þegar viðlíka viðburðir eiga sér stað í alheimssögunni er eitt það mikilvægasta að sjálfsögðu veitingarnar. Ljóst er að það dugar ekki að opna snakkpoka. 

Royalisti Íslands, Albert Eiríksson, er með þetta á hreinu. Hann tók saman lista á heimasíðu sinni, Albert eldar, yfir heppilegar og viðeigandi veitingar svona snemma dags.

Gúrkusamlokur. Þær eru ákaflega breskar og voru í uppáhaldi hjá drottningunni. Mikilvægt er að skera skorpuna af og hafa þær í litlum lekkerum bitum.

Íslenskar pönnukökur. Að sögn Alberts elskaði Filippus Bretaprins íslenskar pönnukökur þannig að þær eru ákaflega viðeigandi.

Breskar skonsur. Afar viðeigandi.

Létt salöt og heitir réttir koma einnig vel til greina og svo auðvitað snittur. Það er þó ein gullin regla og það eru lekkerheitin. Eins er við hæfi að bjóða upp á te. Helst Earl Grey.

Drottningin var mjög hrifin af gini og vissulega væri viðeigandi að skála fyrir henni en þá mælum við að sjálfsögðu með áfengislausu gini enda glórulaust að enda útförina á hádegisbarnum.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert