Kökurnar sem gerðu allt brjálað

Ljósmynd/María Gomez

„Hér gefur að líta á geggjaðar kökur sem eru svo góðar að það er eiginlega hættulegt að baka þær, því maður getur bara ekki stoppað. Kökurnar eru afsprengi af þessum kökum hér að neðan sem má kannski segja að gamni að hafi gert allt brjálað,“ segir María Gomes á Paz.is um uppskriftina hér að neðan en eftir að uppskriftin birtist fór allt á hliðina.

„Bæði í þeim skilningi að þær eru brjálæðislega góðar og líka bókstaflega gerðu þær aðila út í bæ brjálaðan út í mig sem ásakaði mig um að vera óheiðarleg. Ástæðan er sú að honum fannst ég vera að stela “go to” uppskriftini sinni frá Tasty, og að það væri mesta bull að ég hafi fundið hana skrifaða niður í bók út í bílskúr,“ segir María og heldur áfram. „Við hjónin erum mikið áhugafólk um uppskriftir og eigum ógrynni af uppskriftum sem hafa verið klipptar úr tímaritum og blöðum héðan og þaðan. Eins rissum við stundum upp í sérstakar stílabækur, sem við höfum átt í gegnum tíðina, uppskriftir sem við höfum prófað eða langar að prófa.“

„Þar sem margar af þeim eru fengnar fyrir mína bloggtíð er erfitt að vita frá hvaða aðila, vefsíðu, tímariti eða bara yfir höfuð hvaðan þær koma. Sumar af þeim eru frumsamdar af mér og jafnvel allt að 15-20 ára gamlar aðrar ekki,“ segir María og bætir því við að hún gæti þess alltaf sérstaklega á vesíðunni sinni að geta heimilda ef uppskriftirnar eru ekki frumsamdar. Hún hafi hins vegar ekki vitað að uppskriftin hafi upprunalega komið frá Tasty þegar hún fékk hana að láni frá eiginmanni sínum eins og frægt er orðið.

„En rétt skal vera rétt og hér með staðfestist það hin uppskriftin með súkkulaðibitunum í er líklegast fengin frá Tasty en hún er nánast eins. Eins stend ég við hvernig ég fann uppskriftina enda er ég ekki vön að vera óheiðarleg þegar ég get þess hvernig uppskriftirnar af vefnum eru fengnar,“ segir María og við staðfestum það að það eru fáir matarbloggarar jafn öflugir í að geta heimilda eins og hún er.

Kökurnar sem gerðu allt brjálað

Hráefni

 • 100 g sykur 
 • 165 g púðursykur 
 • 1 tsk. fínt borðsalt 
 • 115 g bráðið smjör 
 • 1 egg 
 • 1 tsk. vanilludropar 
 • 155 g hveiti 
 • 1/2 tsk. matarsódi 
 • 120 g hvíta súkkulaðidropa (það má líka skera niður hvítt súkkulaði í grófa bita)
 • 100 g makadamíuhnetur (ég notaði sem komu ristaðar og saltaðar í pokanum)

Aðferð

 1. Þeytið saman í hrærivél sykur, salt og smjör þar til það verður kekkjalaust og þykkt 
 2. Bætið þá egginu saman við ásamt vanilludropum og þeytið þar til það verður þykkkt, létt og loftkennt 
 3. Setjið þá næst hveitið og matarsódann og hrærið saman með sleikju eða sleif en ekki í hrærivél og passið að hræra ekki of mikið því þá verða kökurnar ekki eins góðar, bara rétt svo að blanda saman á þessu stigi 
 4. Setjið að lokum súkkulaðið og hneturnar út í og hrærið aftur sem minnst með sleif eða sleikju. Kælið deigið í minnst 30 mínútur, því lengur sem þið kælið deigið því betri kökur en Raggi gerði þetta deig að kvöldi og geymdi í ísskáp yfir nótt......
 5. Hitið ofninn á 180°C blástur og setjið bökunarpappír á plötu 
 6. Best er að móta svo kökurnar með smákökuskeið eða ísskeið (hér t.d fæst sniðug skeið en notið þá stærri skeiðina) 
 7. Raðið svo hverri kökukúlu úr skeiðinni með 10 cm á milli svo þær leki ekki saman og hafið eins og 5 cm frá endanum á plötunni svo þær leki ekki út af
 8. Bakið svo í 12-15 mínútur eða þar til kantarnir eru aðeins búnir að dökkna en eru ljósari í miðju, Raggi hafði þær í sléttar 13 mínútur. Ekki baka þær of mikið þá verða þær ekki mjúkar inn að miðju

Gott er að geyma kökurnar í zip it poka eða lofttæmdu boxi. Ég set þær stundum í frystir og tek svo út eina og eina og læt þiðna á borði í eins og 15 mínútur.

Ljósmynd/María Gomez
mbl.is