Kynna haustuppskeruna og „leynibjór“ í kaupbæti

Halldór Darri Guðjónsson bruggari hjá Borg brugghúsi er ánægður með …
Halldór Darri Guðjónsson bruggari hjá Borg brugghúsi er ánægður með haustuppskeruna.

Það verður mikið um dýrðir fyrir bjóráhugafólk á Skúla Craft Bar við Aðalstræti síðdegis í dag. Þá blæs Borg brugghús til haustfagnaðar þar sem kynntir verða þrír nýir haust- og vetrarbjórar og hulunni svipt af því sem kallað er „leynibjór“ brugghússins.

Nú er runnið upp tímabil Októberfest og að vanda sendir Borg frá sér sérstakan bjór af því tilefni. Að þessu sinni er það Daníel nr. 97 sem er Double Bock-bjór sem hefur fengið að liggja og þroskast á hlynsíróps-viskítunnum. Útkoman er að sögn kunnugra mjög margslunginn og forvitnilegur bjór sem tónar vel við haustlitina og kólnandi veður þessa dagana.

Þar með er síður en svo allt upp talið því Borg kynnir einnig til leiks sérstakar útgáfur af systurbjórunum Aski og Emblu. Þeir hafa verið framleiddir árlega að undanförnu. Askur er Imperial Stout en Embla er Imperial Porter en báðir bjórarnir hafa einkennandi karakter frá hlynsýrópi og sykurpúðum. Nýju útgáfur þessara bjóra litast af því að bjórarnir hafa fengið að þroskast á tunnum og taka fyrir vikið á sig nýja og flóknari mynd. Askur var þroskaður á rúgviskítunnum og Embla á Grand Marnier-tunnum.

Daníel nr. 97 er Double Bock-bjór sem hefur fengið að …
Daníel nr. 97 er Double Bock-bjór sem hefur fengið að liggja og þroskast á hlynsíróps-viskítunnum.

Allir þessir þrír bjórar verða á krana á haustfagnaði Borgar sem hefst klukkan 17 í dag. Auk þeirra þriggja hafa bruggmeistarar Borgar ákveðið að taka forskot á jólabjórsvertíðina og leyfa áhugasömum að smakka á vinsælum bjór sem bruggaður hefur verið í nýrri útgáfu. Er þar um að ræða bláberja-súrbjór sem nú er tvöfaldur að stærð og gerð og kallast Skyrjarmur.

mbl.is