Snickers-bitarnir sem fólk tryllist yfir

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

„Ég var svo heppin á dögunum að fá bókina Lifðu til fulls eftir hana Júlíu Magnúsdóttur. Þar er að finna ógrynni af góðum uppskriftum sem allar eru hollar og orkumiklar. Ég stóðst ekki mátið með Snickers-molana enda ekki amalegt að hafa hollari útgáfu af slíkum við höndina til að grípa í þegar sætindaþörfin hellist yfir. Ég útfærði uppskriftina örlítið til eftir þeim hráefnum sem ég átti til á heimilinu en útkoman var alveg dásamleg og gott að eiga þessa bita í frystinum,“ segir Berglind Hreiðarsdóttir um þessa Snickers-bita sem við fullyrðum að séu algjörlega trylltir.

Snickers-bitar Júlíu

Um 16 bitar

Botn

  • 120 g Til hamingju döðlur
  • 100 g Til hamingju möndlur með hýði
  • 30 g Til hamingju gróft kókosmjöl
  • 15 g bökunarkakó
  • ¼ tsk. salt
  • ½ tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Hellið sjóðandi vatni yfir döðlurnar og leyfið þeim að mýkjast upp í um 30 mínútur, pressið vatnið þá af þeim.
  2. Klæðið eldfast mót með bökunarpappír, ég notaði 20 x 20 cm stórt form.
  3. Setjið næst öll hráefnin í blandara/matvinnsluvél og maukið.
  4. Ég notaði blandarann því ég nennti ekki að ná í matvinnsluvélina og það var smá þolinmæðisverk, skóf eflaust 20 x niður og mixaði upp á nýtt en það hafðist engu að síður.
  5. Hellið í eldfasta formið, þjappið niður og geymið í frysti á meðan þið útbúið kremið.

Karamellukrem + hnetusmjörslag

  • Um 150 g gróft hnetusmjör
  • 120 g Til hamingju döðlur
  • 60 g kókosolía (brædd)
  • ¼ tsk. salt
  • ½ tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Hellið sjóðandi vatni yfir döðlurnar og leyfið þeim að mýkjast upp í um 30 mínútur, pressið vatnið þá af þeim.
  2. Setjið döðlur, kókosolíu, salt og vanilludropa í blandarann og maukið þar til nokkuð slétt og mjúk áferð myndast.
  3. Takið botninn úr frystinum, smyrjið fyrst hnetusmjöri yfir botninn og næst karamellukremslaginu.
  4. Setjið aftur í frysti á meðan þið útbúið súkkulaðihjúpinn.

Súkkulaðihjúpur

  • 30 g bökunarkakó
  • 50 g kókosolía (brædd)
  • 1 tsk. döðlusíróp

Aðferð:

  1. Til hamingju gróft kókosmjöl til að strá yfir
  2. Pískið allt saman í skál þar til slétt og fínt, smyrjið þá yfir karamellukremið.
  3. Frystið aftur í að minnsta kosti þrjár klukkustundir eða yfir nótt, skerið í bita og geymið í frysti/kæli fram að notkun.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert