Uppskriftin sem varð óvart til en allir elskuðu

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Oftar en ekki byrjum við daginn með nokkuð háleitar og skýrar hugmyndir um hvað við ætlum að hafa í kvöldmat. Endrum og eins fer þó ekki allt eins og við ætluðum okkur.

„Um daginn tók ég út hakk úr frystinum og planið var að gera hakk og spagettí í kvöldmat. Síðan rann dagurinn frá mér og ég hafði ekki komist í búð til að kaupa pastasósu né spagettí og var ég næstum hætt við að nota hakkið. Ég ákvað að sjá hvað væri til í kotinu og viti menn, úr varð þessi undurljúffenga grýta sem kláraðist upp til agna!“ segir Berglind Hreiðars á Gotteri.is um þessa dýrindis grýtu sem við megum til með að prófa.

Kósígrýta

 • 1 laukur
 • 500 g nautahakk
 • 100 g pastaslaufur
 • 100 g fyllt ostapasta
 • 5 msk. tómatsósa
 • 400 ml rjómi
 • 100 g pizzaostur
 • 1 msk. oreganó
 • salt, pipar, paprikukrydd og hvítlaukskrydd eftir smekk
 • ólífuolía til steikingar
 • parmesanostur yfir í lokin (má sleppa)

Aðferð:

 1. Sjóðið báðar tegundir af pasta á meðan þið eldið hakkið sjálft.
 2. Saxið laukinn mjög smátt (þá fatta krakkar ekki að það sé laukur í matnum).
 3. Steikið lauk og nautahakk upp úr ólífuolíu, kryddið eftir smekk.
 4. Hellið tómatsósu, rjóma og pítsuosti á pönnuna og hrærið vel þar til osturinn er bráðinn og rjómakennd sósa myndast, bætið oreganó á pönnuna og frekara kryddi eftir smekk.
 5. Sigtið pastað og bætið saman við.
 6. Þeir sem vilja geta síðan rifið parmesanost yfir allt saman!
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is