Hagkaup stendur fyrir söfnun til styrktar Bleiku slaufunni

Eva Laufey og Árni Reynir.
Eva Laufey og Árni Reynir. mbl.is/Aðsend

Bleika slaufan er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttu gegn krabbameini hjá konum. Hagkaup er einn fjölmargra styrktaraðila átaksins og ætlar í ár að bæta um betur og leggja söfnuninni lið með beinum hætti. Þannig munu viðskiptavinir verslunarinnar geta styrkt átakið með því að bæta 500 krónum við innkaup sín sem renna til söfnunarinnar og mun Hagkaup leggja til aðrar 500 krónur í mótframlagi.

„Okkur í Hagkaup er bæði ljúft og skylt að styrkja átakið með þessum hætti því öll höfum við því miður einhver tengsl við krabbamein, beint eða óbeint. Krabbameinsfélagið vinnur einstakt starf og við erum gífurlega stolt að taka þátt í átakinu og hvetjum að sjálfsögðu alla til þess að styðja við átakið,“ segir Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups.

„Bleika slaufan gegnir afar stóru hlutverki í markaðs- og fjáröflunarstarfi Krabbameinsfélagsins og gerir félaginu kleift að vinna að sínum meginmarkmiðum sem eru að fækka þeim sem veikjast af krabbameini, að lækka dánartíðni þeirra sem greinast með krabbamein og að bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandendur þeirra. Hagkaup er í okkar dýrmæta hópi samstarfsaðila sem bæði selja slaufuna en láta líka hluta af sölu renna til Krabbameinsfélagsins. Slaufan kemur í sölu um allt land föstudaginn 30. september og okkur þætti afar vænt um að sjá hana í barminum á sem flestum,“ segir Árni Reynir Alfreðsson, forstöðumaður markaðs- og fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu

mbl.is