Gómsæt graskerssúpa sem yljar hjartaræturnar

Ljósmynd/Linda Ben

Hér er á ferðinni súpa sem hringir inn haustið ef svo má að orði komast. Grasker eru einmitt að mæta í verslanir þessi dægrin í allri sinni dýrð en þau eru frábært hráefni. Hér notar Linda Ben svokallað butternut grasker sem er einnig afar vinsælt í barnamat.

Gómsæt graskerssúpa

  • 1 meðal stórt Butternut squash grasker
  • 3 msk. olífu olía
  • 1 tsk. salt
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 rauð paprika
  • 1 epli
  • Salt og pipar
  • 2 kjúklingateningar
  • 500 ml rjómi frá Örnu Mjólkurvörum
  • 250 ml vatn (meira ef vantar)
  • Fersk steinselja (má sleppa)

Aðferð:

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
  2. Flysjið graskerið, fræhreinsið og skerið í bita. Raðið á smjörpappírsklædda ofnplötu, hellið ólífu olíu yfir og sáldrið saltinu yfir. Bakið í u.þ.b. 30 mín eða þar til það er orðið mjúkt í gegn.
  3. Á meðan graskerið er að bakast, skerið þá laukinn niður og steikið upp úr 1 msk af olífu olíu í súpupotti. Þegar laukurinn er orðinn glær, pressið þá hvítlaukinn út í, steikið létt. Skerið paprikuna niður og bætið ofan í pottinn, steikið. Skerið kjarnhreinsið eplið, skerið það niður og bætið út í pottinn.
  4. Hellið rjómanum út á og bætið kjúklingakraftinum út í, leyfið aðeins að malla.
  5. Þegar graskerið er tilbúið, bætið því þá út í pottinn og maukið allt í pottinum með töfrasprota. Bætið vatninu út í (setji meira ef ykkur finnst súpan ennþá of þykk), smakkið til með salti og pipar.
  6. Berið fram með ferskri steinselju.
Ljósmynd/Linda Ben
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert