Ein allra besta marengsterta sem bökuð hefur verið

Berglind Hreiðarsdóttir

Við erum alltaf að leita að nýjum og spennandi kökuuppskriftum og þreytumst ekki á að prófa eitthvað nýtt. Hér erum við með uppskrift úr smiðju matarbloggarans Berglindar Hreiðars á Gotteri.is sem hún segir að sé klárlega með bestu marengstertum allra tíma.

„Þegar við bjuggum í Seattle kom vinur okkar eitt sinn með Snickers-köku í partí. Ég fór að reyna að finna uppskriftina frá honum en ekkert gekk svo ég gúglaði þetta aðeins og sá köku sem leit út alveg eins og hans á vef Mannlífs síðan einhvern tímann fyrir löngu. Ég notaðist því við þá uppskrift með smá tilfæringum, eins og gengur og gerist þegar ég prófa uppskriftir frá öðrum. Útkoman var alveg hreint stórkostleg og þetta er klárlega með marengstertum allra tíma!

Snickersterta

Marengsbotnar
  • 5 eggjahvítur
  • 280 g púðursykur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 130°C og teiknið tvo hringi hvorn á sinn bökunarpappírinn sem eru 20-22 cm í þvermál, leggið á bökunarplötu.
  2. Þeytið næst saman hvítur og sykur þar til stífþeytt (nokkrar mínútur).
  3. Skiptið blöndunni jafnt niður inn í hringina sem þið teiknuðuð, sléttið úr og jafnið eftir hringnum.
  4. Bakið í 60 mínútur og slökkvið á ofninum og leyfið marengsinum að kólna með honum.
Fylling
  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 100 g Snickers (2 stykki) skorin smátt
  • 30 g suðusúkkulaði saxað
Aðferð:
  1. Blandið öllu varlega saman með sleikju og setjið á milli botnanna.
Súkkulaðikrem á toppinn
  • 50 g smjör
  • 100 g Snickers (2 stykki) skorin smátt
  • 100 g suðusúkkulaði saxað
  • 5 eggjarauður
  • 50 g flórsykur
  • salthnetur

Aðferð:

  1. Bræðið saman smjör, Snickersbita og suðusúkkulaði. Skiljið smá af Snickersinu eftir til að strá yfir í lokin. Hrærið vel við meðalháan hita þar til bráðið og takið þá af hellunni og leyfið hitanum að rjúka úr.
  2. Þeytið eggjarauður og flórsykur þar til létt og þétt blanda myndast (nokkrar mínútur).
  3. Blandið þá súkkulaðiblöndunni varlega saman við með sleikju og setjið yfir marengskökuna, toppið með Snickersbitum og salthnetum.
  4. Kremið mun leka niður hliðarnar svo ekki er verra að hafa stóran kökudisk undir eða kökudisk með köntum til að grípa allt gúmelaðið.
  5. Því er gott að koma kökunni í kæli um leið og kreminu hefur verið smurt á hana og leyfa henni síðan að standa í nokkrar klukkustundir áður en hennar er notið.
Berglind Hreiðarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert